föstudagur, ágúst 10, 2012

10. ágúst 2012 - Á að taka barnabörnin með?

Ég hefi verið gagnrýnd fyrir að virkja börn og barnabörn í þágu mannréttinda, að tala um þau eins og að þau séu hluti af þeirri baráttu sem ég hefi verið að vinna fyrir. Þó að sú mannréttindabarátta sem ég hefi unnið að hafi fyrst og fremst verið barátta hinsegin fólks, hefi ég unnið lengi að ýmsum mannréttindamálum, á Íslandi fyrst og fremst innan Amnesty International, en hefi einnig tekið virkan þátt í IGLHRC, alþjóðlegu netverki hinsegin fólks.

Þegar Amnesty International hélt upp á hálfrar aldar afmælið bauð ég sonardóttur minni að taka þátt með mér. Hún var þá tólf ára. Ég veit ekki til að mannréttindi hafi spillt henni á nokkurn hátt. Sumarrós býr við þá sérstöðu að hún er einasta barnabarnið sem býr ekki með báðum foreldrum samtímis. Hin fimm barnabörnin búa öll með báðum foreldrum sínum. Slíkt búendaform krefst þess af öfum og ömmum að lögð sé sérstök rækt við þessi barnabörn sem búa ekki með báðum foreldrum.

Ég viðurkenni alveg að ég hefi trassað uppeldi barna minna, en ég get leyft mér að sýna barnabörnunum þá virðingu sem þau eiga skilið. Þessvegna reyndi ég að sýna Sumarrós þessa virðingu þegar Amnesty hélt upp á fimmtíu ára afmælið og það kom einungis ein manneskja til greina mér til aðstoðar er mér bauðst að taka við mannréttindaverðlaunum Samtakanna 78 árið 2012.

Þegar ég var kölluð fram í salinn gekk Sumarrós sonardóttir mín fram á sviðið og ég fylgdi í humátt á eftir. Það var yndislegt að horfa á þúsund manns í Háskólabíó standa upp og klappa fyrir Sumarrós og kannski pínulítið mér. Ég vona að þessi yndislega uppákoma hafi sýnt Sumarrós þá samstöðu og kraft sem barátta fyrir jafnan rétt allra og almennum mannréttindum geti fært okkur öllum.

Ég var allavega stolt af þrettán ára barnabarni mínu sem stóð sig sem hetja á opnunarkvöldi hinsegin daga í Reykjavík árið 2012.


0 ummæli:







Skrifa ummæli