fimmtudagur, janúar 07, 2016

8. janúar 2016 - Hvað ungur nemur gamall temur


Eins og sumir lesendur þessa fátæklega bloggs vita, er ég illa haldin af ættfræðiáhuga, var fyrst skráð í Ættfræðifélagið á níunda áratug síðustu aldar en svo aftur frá 1997 til þessa dags. Þá var ég í stjórn Ættfræðifélagsins árin 2003 til 2007 og svo aftur 2012 til 2014, tvö síðustu árin sem formaður, en þá ákvað ég að draga mig í hlé vegna yfirálags enda á kafi í öðrum verkefnum sem kröfðust mikils af mér. Þótt ég hafi einungis verið í stjórn þessi ár sem ég nefni hér var ég virk í starfi félagsins allt frá því fyrir aldamótin og er enn að einhverju leyti þótt ég treysti mér ekki til trúnaðarstarfa innan félagsins enda ættfræðin slíkur grundvöllur að allri sagnfræði að vart finnast öflugri grunnar.

Fyrstu árin sem ég mætti reglulega á fundi og opin hús hjá Ættfræðifélaginu eignaðist ég marga góða vini sem einnig voru virkir félagar. Yfirleitt voru þetta eldri félagar sem kynntu mig fyrir ævintýraheim ættfræðinnar, ekki einungis fólk á borð við Einar heitinn Torfason fyrrum togaraskipstjóra og tollvörð, en við elduðum grátt silfur saman um skeið er ég var í farmennskunni, en áttum samt góðar stundir saman er við ræddum saman um áhugamálin, en einnig hjónin að Unufelli 9, þau Hólmfríði og Eggert og fjölmargt annað áhugafólk um þetta sameiginlega áhugamál okkar.

Í opnu húsi Ættfræðifélagsins hittust margir eldri félagar og ræddu áhugamálið, sumir sérfræðingar á sínu heimasvæði, Ásgeir Svanbergsson sérfræðingur um Vestfirði, Guðfinna Ragnarsdóttir sérfræðingur um Dalina, Ragnar Ólafsson sérfræðingur um Borgarfjörð, Eyjólfur Davíðsson sérfræðingur um Breiðafjörð og Snæfellsnes, Ólafur H. Óskarsson sérfræðingur um Breiðafjarðareyjar, Kristinn Kristjánsson sérfræðingur um Eyjafjörð, Ingibjörg Tönsberg sérfræðingur um Grímsneshrepp, Ragnar Böðvarsson, sérfræðingur um Rangárvallasýslur og er þá margt ótalið og það var yndislegt að hlusta á þessa sérfræðinga og læra af þeim, viskan vall af þeim í hverri setningu sem þau létu út úr sér og ef fávitinn ég komst að og spurði voru svörin ávallt á reiðum höndum og sjaldan þurfti ég að bíða lengi svara og ef svarið var ekki á reiðum höndum er ég spurði, leið ekki á löngu uns ég fékk simtal eða tölvupóst frá viðkomandi sem hafði fundið og leiðrétt villuna sem ég hafði verið að vandræðast með í ættfræðiskráningunni.

Sumir þessara ættfræðinga eru látnir, aðrir enn í fullu fjöri þótt flestir séu komnir á eftirlaun. Ólafur H. Óskarsson er látinn, Ragnar Böðvarsson er látinn og tvö ofantalinna létust fyrir skömmu, þau Ingibjörg Tönsberg sem var jarðsungin 4. janúar síðastliðinn og Eyjólfur Davíðsson sem var jarðsunginn 7. janúar. Því miður komst ég í hvoruga útförina og þykir það miður.

Ingibjörg Tönsberg var ekki aðeins sérfræðingur í ættum fólks í Grímsneshreppi. Hún var kennari og einnig lengi atvinnumanneskja í að kyngreina kjúklinga og hún ók bíl fram eftir öllum aldri eða uns hún fór að nálgast nírætt og hugsa nú margir, „eins gott að ég lenti ekki á eftir þessari“. Engar áhyggjur því Imba var eðlileg í umferðinni og erfitt að ímynda sér að hún væri komin yfir áttrætt, en hún var á 94. ári er hún lést, fædd 1921, en lést skömmu fyrir jól og var jarðsungin 4. janúar 2016.

Þremur dögum eftir útför Ingibjargar var Eyjólfur Davíðsson skraddari fæddur 1924 jarðsunginn. Einhverju sinni á opnu húsi hjá Ættfræðifélaginu er við ræddum saman, kom í ljós að yngsti bróðir hans var Sverrir Davíðsson togarajaxl, kallaður Svarkurinn. Sverrir hafði marga fjöruna sopið og ég var með honum á togurum 1966 og 1967 þar sem ég eignaðist góðan vin í sjómennskunni. Sverrir varð áfenginu að bráð um skeið, tapaði öllu sínu og lenti á götunni, en um miðjan áttunda áratugnum hætti hann að drekka og fór að vinna í landi og gerðist góðborgari. Minnist ég þess enn er ég kom eitt sinn í Þórskaffi sem þá var orðinn vínveitingastaður og hitti þar fyrir Sverri og Helga sem einnig var af Snæfellsnesi, tvo fyrrum „róna“ sem skemmtu sér hið besta og báðir bláedrú, segjandi sögur af gömlum ævintýrum á sjónum.

Eyjólfur færði mér oft nýjustu fréttir af Sverri og síðast af dauða hans, en Sverrir hélt upp á 75 ára afmælið vorið 2004 með viðhöfn, bláedrú eins og þrjá áratugi á undan, fékk hjartaáfall í veislunni og lést fáeinum dögum síðar, vonandi ánægður með gott ævistarf.

Þessir snillingar eins og Ingibjörg og Eyjólfur eru mér ógleymanleg á meðan ég lifi. Með hógværð sinni voru þau mér sem leiðarvísir í ættfræðinni og stuðningur til lífstíðar rétt eins og Ragnar Böðvarsson, Ólafur H. Óskarsson, Guðjón Óskar Jónsson og mörg önnur sem fallið hafa frá og lifa áfram í minningunni.      


0 ummæli:







Skrifa ummæli