miðvikudagur, janúar 13, 2016

13. janúar 2016 - TóbaksmenningKunningi minn, skipstjóri í Vestmannaeyjum, hætti að taka í nefið um áramótin. Ég get vel skilið tilfinningar hans dagana á eftir og skil vel að hann skyldi hafa fallið á þrettándanum og sló tóbaksbindindinu á frest.

Þótt liðin séu meira en fimmtán ár síðan ég hætti að reykja man ég enn hve erfitt það var að hætta og margar tilraunir gerðar til að hætta áður en það tókst að lokum um aldamótin. Það má segja að líf mitt snérist um tóbak, enda reykti ég að meðaltali 30 sígarettur á dag í þrjátíu ár. Það að hætta var þó nánast barnaleikur samanborið við allar þær aðstæður sem ég lenti í þar sem ekki mátti reykja. Ég var að sjálfsögðu löngu hætt að fara í kvikmyndahús þar sem ekki mátti reykja og það var sem martröð að fara með flugi á milli landa eftir að bannað var að reykja í áætlunarflugi. Þá gætti ég þess að tryggja mér sæti sem næst útgöngudyrum til að styttra væri að komast úr vélinni og á reyksvæði flugvallar eða út úr flugstöðinni í sama tilgangi. Allt frá því komið var inn í flugvélina og þar til farið var úr henni var sem víti, mér fannst allir vera ömurlegir og leiðinlegir og vond fýla af þeim og ég varð þeirri stund fegnust er dyrnar opnuðust og ég ruddist framhjá öllum út úr vélinni til að komast á næsta reyksvæði.

Ég er auðvitað löngu frelsuð, hætt að hugsa um tóbakið daglega og get ekki annað en brosað í laumi ef ég er með gesti sem eru í dag svo kurteisir að þeir biðja um að fá að fara út á svalir til að reykja og engum dettur lengur til hugar að taka upp sígarettuna og kveikja í henni án þess að biðja um leyfi þótt það sé utan míns umráðasvæðis. Þá eru flugferðir orðnar að hinnu bestu skemmtun þegar hægt er að njóta útsýnis og þjónustu og fylgjast með gangi vélarinnar allt frá flugtaki til lendingar. Þrátt fyrir þetta eiga reykjandi flugfarþegar þó enn alla mína samúð.

Ein vinkona mín var að fara til vesturstrandar Bandaríkjanna með flugi og ég skutlaði henni á flugvöllinn. Hún er frekar óvön flugstöðvum og þekkir ekki vel aðstæður á Keflavíkurflugvelli. Á leiðinni til Keflavíkur bað hún mig lengstra orða gefa sér smátíma til að fá sér smók áður en farið væri inn í flugstöðina. Allt í lagi, sagði ég og svo komum við á flugvöllinn, tókum  töskurnar hennar úr bílnum og við fórum beint inn þar sem ég var búin að bjóðast til að vera henni til aðstoðar við innritunina. Tilhlökkunin var mikil og ég kvaddi hana og hélt heim á leið.

Þar sem ég ók eftir Reykjanesbrautinni og komin langleiðina til Reykjavíkur mundi ég allt í einu eftir því að vinkona mín hafði ekki fengið síðasta smókinn sinn við flugstöðina. Uppfull samviskubits lagði ég bílnum utan við veg, hringdi í hana og gaf henni leiðbeiningar um hvernig hún kæmist inn á reykherbergi í flugstöðinni áður en farið yrði í loftið. Hún tók leiðbeiningunum feginsamlega og ég losnaði við samviskubitið.

Mikið er nú gott að vera hætt að draga þennan tóbaksdjöful á eftir sér.  


0 ummæli:Skrifa ummæli