þriðjudagur, desember 29, 2015

29. desember 2015 - Dr. Sölvína Konráðs

Ég var að heyra að Dr. Sölvína Konráðs hefði látist á aðfangadag jóla, daginn fyrir 67 ára afmæli sitt, en hún var fædd 25. desember 1948.

Það var haustið 1987 sem ég kynntist Sölvínu. Ég var þá nýlega komin í land eftir að hafa orðið fyrir vinnuslysi um borð í Álafossi, hafði ákveðið að ljúka námi við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og hafði boðist til að aðstoða við innritun nýnema í námið. Sölvína var þá orðin námsráðgjafi við Menntaskólann við Hamrahlíð, hafði sjálf lokið stúdentsprófi frá öldungadeild MH áður en hún hóf nám í sálfræði. Meðfram störfum sínum sem námsráðgjafi sinnti um leið sálfræðiþjónustu við nemendur og það leið ekki á löngu uns ég bar mín vandamál á borð við hana.

Öfugt við flesta sem ég hafði rætt við áður sýndi hún mér skilning og var til að byrja með ein um slíkt, var ekkert að kveða upp úr með þessa bábilju í mér heldur tók af mér nokkurs konar skýrslu sem hún sendi síðan til Bandaríkjanna þaðan sem svarið kom þess eðlis að ég væri transsexual. Jafnframt kynnti hún sér þennan þátt mannlífsins mjög gaumgæfilega en sendi mig síðan til tveggja geðlækna sem staðfestu fyrir sitt leyti þessa niðurstöðu hennar.

Á þessum tíma var ekkert til í íslensku heilbrigðiskerfi sem bauð upp á einhverskonar stuðning eða úrbætur transfólki til handa. Sölvína hafði samband við heilbrigðisyfirvöld á Norðurlöndunum fyrir mína hönd og niðurstaðan varð sú að ég flutti til Svíþjóðar og lauk þar mínu leiðréttingarferli. Ég hafði reglulega skriflegt samband við Sölvínu meðan á ferlinu stóð í Svíþjóð og hitti hana þá sjaldan ég kom til Íslands.

Eftir að ég flutti heim aftur hitti ég hana sárasjaldan, var í litlu netsambandi við hana og vissi því ekki mikið um stöðu mála. Því kom það mér á óvart að heyra um andlát hennar.

Það má segja að störf Sölvínu höfðu mikil áhrif á líf mitt og óvíst hvernig hefði farið ef hennar hefði ekki notið við. Sömu sögu er að segja um margt transfólk sem leitaði til hennar á síðari stigum og sem hún hjálpaði í gegnum erfiðasta hjallann, kannski erfiðasta hjalla sem nokkur manneskja getur gengið í gegnum. Alltaf var hún tilbúin til að aðstoða okkur.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég votta fjölskyldu hennar samúð mína.


0 ummæli:Skrifa ummæli