laugardagur, desember 26, 2015

26. desember 2015 - Jólahefðir

Alltaf finnst manni jólin vera eins þótt þær taki heilmiklum breytingum í gegnum árin, ekki aðeins með breytingunni frá barni í fullorðinn einstakling heldur einnig á mörgum öðrum sviðum.

Sem barn minnist ég jólanna á sinn hátt, litlujólin í skólanum, jólalögin síðustu dagana fyrir jól með Bing Crosby og Hauki Morthens, gervitréð úr tré skreytt á Þorláksmessu, með 20 ljósa seríu með ljósum sem klemmd voru á jólatréð og voru eftirlíking kerta, pappírsóróar og englahár meðan lesnar voru jólakveðjur fólks sem manni fannst að nennti ekki að senda jólakort, jólakveðjurnar til sjómanna á hafi úti á aðfangadag, útvarpsmessan frá Dómkirkjunni, jólasálmarnir, jólagjafirnar, hryggur eða læri á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag, rauð ilmandi epli, bíó á annan dag jóla og enn meiri útvarpskveðjur, nú frá Íslendingum í útlöndum, konfekt og annað sælgæti í miklum mæli. Þá tómleikinn dagana á milli jóla og nýárs áður en næsta hátíð hófst með skrílslátum í miðbænum og flugeldum á miðnætti á gamlárskvöld. Síðan enn meiri tómleiki þótt aðeins slægi á slíkt með álfakóngi og álfadrottningu á Þrettándanum í Mosfellssveitinni.

Svo tóku fullorðinsárin við. Nokkur ár þar sem keypt voru lifandi jólatré með mun fleiri ljósum í ýmsum litum sem kostuðu talsverða vinnu við ryksugun alla daga, mörg jól sem haldin voru á sjó við misjafnar aðstæður, jafnvel mætt heim með jólagjafirnar í febrúar. Ragga Gísla og Dolly Parton tóku við af Hauki og Bing og hamborgarhryggur tók við af lambahryggnum, en hangikjötið hélt sínu og eplin gleymdust. síðar mörg jól erlendis fjarri ættingjunum og oft við vinnu og ekkert var jólatréð og skreytingar allar af skornum skammti. Til að bæta mér upp jólamessuna í Dómkirkjunni er verið var á sjó eignaðist fjölskyldan fyrir löngu jólasálma dómkirkjukórsins á hljómplötu sem ég svo afritaði á kassettu og spilaði um borð ef við vorum fjarri Íslandsströndum.

Í dag er öldin önnur. Tveggja metra gervitréð er sett upp og skreytt með 200 perum í upphafi aðventu. Sömu sögu er að segja um útiskreytingar og jólaóróar frá Georg Jensen hafa tekið við af gömlu pappírsóróunum. Englahárið er gleymt og allskyns virðulegar styttur af íslenskum sem útlendum jólasveinum komnar út um alla íbúð. Klementínur hafa komið í stað eplanna, en malt og appelsín halda enn velli sem og konfektið. Enn eru lesnar jólakveðjur í útvarpinu frá fólki sem nennir ekki að eyða dýrmætum tíma í jólakortaskrif, jólakveðjur til sjómanna á hafi úti heyrast ekki lengur á aðfangadag enda flest eða öll íslensk skip í höfn. Íslendingar erlendis hringja heim í gegnum skype eða með öðrum tölvuforritum Hamborgarhryggurinn er enn á aðfangadagskvöld sem og hangikjöt með uppstúf á jóladag. Borgardætur hafa rutt Röggu Gísla úr vegi og eru í harðri samkeppni við Baggalút, en Dolly heldur enn velli eftir þrjá áratugi og Bing Crosby kominn til baka. Áramótaskaupið er löngu búið að þagga niður í skrílslátum á gamlárskvöld.

Verstu breytingarnar á jólahefðunum finnast mér samt vera jólasálmarnir með messunni í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld. Stjórnendur útvarpsmessunnar hafa í mörg ár reynt að krydda sálmasönginn með misgóðum trompetleik og í einhver ár dundaði trompetleikarinn sér við einleik á trompet ofan í Heimsumból svo úr varð skelfilegt garg. Núverandi trompetleikarar halda vissulega lagi og prýðilegir hljóðfæraleikarar, en einhvern veginn finnst mér þeir engan veginn passa við jólasálmana og maður óttast alltaf að heyra falska tóna fyrri ára meðan sálmarnir eru leiknir. Þótt vissulega sé gaman að hlusta á góða trompetleikara í jasshljómsveit get ég ekki lengur stungið kassettunni í tækið til að hvíla eyrun við trompetleiknum á tímum spotify og annarrar netmiðlunar á tónlist.

Á jóladagskvöld voru jólatónleikar Sinfóníunnar í sjónvarpinu sem endaði á að barnakór söng Heimsumból ásamt kór Langholtskirkju. Þetta hefði verið mjög fallegur söngur ef stjórnendur þáttarins hefðu ekki fengið sópransöngkonu til að krydda Heimsumból með einsöng sem eyðilagði alveg stemmninguna við hlustun á þennan fallega jólasálm sem sístur allra sálma þarf krydd til að verða fallegastur allra sálma.


0 ummæli:Skrifa ummæli