fimmtudagur, desember 24, 2015

24. desember 2015 - Jólahugvekja


Ég tók þátt í friðargöngunni á Þorláksmessu að venju. Hefi gert það flest árin eftir að ég flutti heim aftur frá Svíþjóð og einungis sleppt úr þeim árum sem ég hefi verið á vakt. Það er fátt sem hressir betur upp á sálartetrið en fagur sálmasöngur Hamrahlíðarkórsins undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur um leið og gengið er niður Laugaveginn og niður á Austurvöll þar sem flutt er ávarp og endað með því að kórinn syngur Heimsumból. Það er svo skrýtið að um leið og Heimsumból er sungið finn ég fyrir friði jólanna í sálu minni og fyrir bragðið get ég ekki hugsað mér að sleppa friðargöngunni ef mér er þess einhver kostur að mæta.

Þar sem gengið var í rólegheitum niður Laugaveginn fór ég að velta fyrir mér hvort Laugavegur væri ekki að verða rangnefni á þessa gömlu götu sem var lögð seint á nítjándu öld svo auðveldara væri að komast inn að Þvottalaugum í stað þess að klöngrast í gegnum Skuggahverfið, meðfram sjónum og vaða Fúlalæk áður en komið var inn í Laugardal með allan þvottinn á bakinu og síðan til baka sömu leið með hálfblautan og níðþungan, en þveginn þvottinn heim aftur. Væri ekki nær að kalla götuna Puffin Street eða Hotel Street eftir nýmarkaðsvæðingu götunnar í þágu túrismans? Gamla Bakarabrekkan eða Bankastrætið er hvort eð er orðið að einhversskonar Fleece Street eftir að bankarnir hurfu og við tók röð af fataverslunum í þágu túrista. Nú er kominn einhver aragrúi af lundabúðum á Laugaveginn og hótelin spretta upp eins og gorkúlur. Senn hverfur verslunin Vísir og lundabúð tekur við og þá verður verslunin Brynja eins og vin í eyðimörkinni. Ofan á allt vilja hægrisinnaðir alþingismenn ganga enn lengra í þágu túrismans og úthýsa Þjóðskjalasafninu fyrir hótel og verður þess þá skammt að bíða að Héraðsdómur, stjórnarráðið og Arnarhvoll fari sömu leið.

Er ekki kominn tími til að spyrna við fæti?

Ýmislegt fleira fór um huga minn er ég fylgdi friðargöngunni, hitti fjölda ungra og gamalla hernaðarandstæðinga eða eins og Soffía vinkona mín Sigurðardóttir hefur margoft sagt, gamlir kommar halda pólitískt ættarmót tvisvar á ári, við kertafleytinguna við Tjörnina 6 eða 9 ágúst og svo friðargangan á degi heilags Þorláks.

Á degi heilags Gáttaþefs skreytti fyrirtækið Garðlist gullfallegt grenitré sem stendur í garðinum okkar sem eigum hlut í lóðafélaginu. Þrátt fyrir rótgróna óánægju mína með viðskiptaaðferðir umrædds fyrirtækis máttu þeir eiga að þeir stóðu sig með prýði og er almenn ánægja með skreytinguna á trénu. Með þessu og mynd af trénu vil ég óska öllum sem nenna ennþá að lesa bloggið mitt gleðilegra jóla, árs og friðar.  

P.s. Til að sjá myndina í fullri upplausn er bara að klikka á hana.



0 ummæli:







Skrifa ummæli