laugardagur, desember 05, 2015

5. desember 2015 - Gísli Jóhann Viborg Jensson



Við vorum á leið heim í frí með flugi, höfðum verið í siglingum á milli Evrópu og Ameríku án viðkomu á Íslandi og komin þörf fyrir hvíld frá erfiðu skipi sem var einn City-bátanna og bar leiguheitið Laxfoss, Gísli, Atli og ég. Við höfðum farið frá Amsterdam til Glasgow með KLM og biðum nú eftir Flugleiðavél til að koma okkur síðasta spölinn heim. Þar sem við sátum í flugstöðinni í Glasgow hittum við Íslending sem hafði komið með sömu vél og við frá Amsterdam og furðuðum okkur á einkennilegum ferðamáta hans. Af hverju fór hann þessa leið í stað þess að fara heim með Arnarflugsvél sem fór beint til Íslands frá Amsterdam á sama tíma og við? Við höfðum þó afsökun, sem starfsmenn Eimskipafélagsins máttum við ekki fljúga með Arnarflugi á þeim tíma. Þessi maður hafði enga slíka afsökun. Við ræddum aðeins við hann og sögðum honum meðal annars þær gleðifréttir að búið væri að leysa mánaðarverkfall opinberra starfsmanna á Íslandi. Öfugt við þau viðbrögð sem við bjuggumst við virtist maðurinn verða mjög stressaður við þetta. Okkur öllum þóttu viðbrögðin grunsamleg og eftir að hann var farinn frá okkur ræddum við viðbrögð hans aðeins og Gísli sem ávallt var skemmtilega hvatvís tók af skarið og sagði:
„Við hringjum bara heim og látum athuga manninn“
Svo fór hann í næsta símaklefa og hringdi til Íslands. Við flugum svo heim um kvöldið en er við komum inn í gömlu flugstöðina var Brynjólfur Karlsson tollvörður fyrsti maðurinn sem við mættum er inn var komið og heilsaði okkur en þekktum svo fleiri tollverði og starfsmenn frá fíkniefnalögreglunni. Þeir gripu svo hinn grunaða um leið og hann kom inn í flugstöðina og reyndist hann vera með mikið magn fíkniefna meðferðis sem hann hafði ætlað að koma með til landsins í krafti þess að enn væri verkfall hjá Tollgæslunni.

Ekki veit ég hvort símtal Gísla hafi orðið til þess að maðurinn var handtekinn, en við gengum í gegnum tollhliðið án athugasemda undir vökulum augum tollvarða. Hinsvegar voru snör og fumlaus viðbrögð hans dæmigerð fyrir persónuna Gísla Jóhann Viborg Jensson.

Ég kynntist Gísla nokkrum mánuðum áður er við vorum send út til London að sækja skipið City of Hartlepool sem Eimskip hafði tekið á þurrleigu undir heitinu Laxfoss. Hann var góður viðkynnum og þótt við værum andstæðingar í pólitík reyndist hann samt með skemmtilegustu skipsfélögum sem ég hefi siglt með. Ég hafði áður siglt með bræðrum hans á öðrum skipum Eimskipafélagsins, en hann bar af þeim og mörgum öðrum, skarpgreindur og viðræðugóður og ekki var kímnigáfa hans verri er við sigldum saman á erfiðu skipi á erfiðustu siglingaleið í heimi. Alltaf sá hann jákvæðu hlutina í lífinu og hló að erfiðleikunum.

Eftir veruna á Laxfossi urðum við aftur skipsfélagar á Álafossi. Það var svo í mars 1987 er við komum til Hamborgar að Gísli var kallaður í símann. Hálftíma síðar kom hann svo grátandi niður í vélarúm, sagði okkur að yngri dóttir sín hefði dáið þar sem hún var tengd við nýrnavél á Landspítalanum og að hann væri á leið heim með næstu vél. Við sigldum svo saman í nokkra mánuði eftir þetta þar til ég þurfti að yfirgefa skipið vegna slyss um haustið 1987 og hætti til sjós að aðalstarfi.

Ég hitti Gísla sjaldan eftir þetta. Ég flutti til Svíþjóðar en hann hætti til sjós og réði sig til ÍTR. Það var helst að við hittumst þar sem hagsmunir okkar lágu saman en lífeyrissjóður Eimskipafélagsins fór mjög illa út úr hruninu 2008 og hittumst við á fundum vegna þess. Ég vissi því ekkert af veikindum hans fyrr en einn gamall skipsfélagi lét vita af andláti hans, en Gísli Jensson lést á líknardeild daginn fyrir 66 ára afmælið sitt. Útför hans fór fram frá Grafarvogskirkju 4. desember 2015. Hans verður sárt saknað.

Elsa eiginkona hans og Anna María eldri dóttir þeirra sem og barnabörn eiga mína samúð.



0 ummæli:







Skrifa ummæli