miðvikudagur, júní 11, 2008

11. júní 2008 - Barnaleg Björk og kjánaleg Condolezza!

Aldrei datt mér í hug að ég og Árni Johnsen ættum eftir að vera sammála í einu né neinu. En nú hefur undrið skeð því með grein í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins á þriðjudag birtist grein eftir Árna sem var sem beint úr mínu hjarta.

Í grein sinni bendir Árni á þann barnaskap sem poppstjörnur og aðrir listamenn láta frá sér fara er þau álpast til að eyða einni nóttu á ári á Íslandi og nota þá tækifærið til að reyna að hafa vit fyrir þjóðinni og tala þá oft þannig að fólk eigi bara að hlusta á gáfumennin, hætta að byggja upp landið sitt og fara á kaldan klaka, allt fyrir mikla náttúrufegurð (mitt orðalag). Um leið bendir Árni á „hollráð“ frá erlendum stjórnmálamönnum og sérfræðingum sem eru að segja okkur hvernig við eigum að lifa á Íslandi á þeirra forsendum, en ekki okkar. Síðasta dæmið er yfirlýsing utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem harmar að Íslendingar skuli hafa hafið hvalveiðar á ný. Sjálfir eru Bandaríkjamenn mestu hvalveiðimenn í heimi. Þá virðist ekkert varða um þótt hvalir kunni að éta okkur út á gaddinn.

Ég þarf ekkert að éta allt upp eftir Árna Johnsen en hvet fólk til að lesa grein hans um leið og ég frábið íslensku þjóðinni þess að fá aðra eins heimsókn og Condolezzu á dögunum sem reyndi að benda okkur á flísina í auga okkar um leið og hún sá ekki bjálkann í sínu samanber svar hennar við gagnrýni á fangabúðirnar í Guantanamo.


0 ummæli:Skrifa ummæli