sunnudagur, júní 22, 2008

22. júní 2008 - Ný tölva

Ég man fyrir um 15 árum að mig langaði til að eignast tölvu og spurði sænskan vinnufélaga minn að því hvernig tölvu ég ætti að fá mér. Ekki stóð á svörunum og mæltist hann til þess að ég fengi mér tölvu með stýrikerfinu 386 með 4 mb vinnsluminni fremur en 2 mb, og hraðinn þyrfti að vera 66 mhz sem væri öllu öflugra en 33 mhz tölurnar sem þá voru vinsælastar á markaðnum, en harði diskurinn yrði að vera minnst 200 mb. Auðvitað yrði tölvan að vera hæf til notkunar á því flottasta sem nú væri komið, netinu.

Þessa dagana er ég að farast úr snobbi. Um daginn eignaðist ég nefnilega nýja tölvu, þriðju borðtölvuna sem ég hefi eignast, en auk þeirra hefi ég átt tvær fartölvur. Sú nýjasta er auðvitað langflottust og svo flott að það rignir niður í nasirnar á mér af snobbi þegar ég byrja að dásama gripinn, Dell XPS-420-V með 2 GB Dual vinnsluminni, 320 Gb hörðum diski og einhverjum lifandis helling af allskyns möguleikum sem ég kann ekki einu sinni að nefna. Auk þessa er ég með 500 Gb utanáliggjandi harðan disk fyrir tónlist og ljósmyndir Að sjálfsögðu er ég með Microsoft Vista Ultimate til að stýra kerfunum í tölvunni og Microsoft Office Ultimate fyrir daglega vinnslu, þráðlaust lyklaborð og mús og allskyns aðra möguleika sem ég kann ekki að nefna, enda kostaði tölvan nánast æruna.

Ég hafði ætlað mér að ganga Selvogsgötuna á laugardag, en allur dagurinn fór í að setja upp kerfi í nýju tölvunni, landakortin mín og Frissa fríska í stað Makkaffí. Það gefur auðvitað auga leið að ekki hefði fundist tækifæri til að ganga eitt né neitt þegar ung vinkona mín kom til að hjálpa mér við tölvuvinnuna.

-----oOo-----

Miðað við viðbrögðin hefði ég átt að skrifa um Lúkas eða meintan dýraníðing á laugardag, en ég ætla ekki að gera það. Ekki ætla ég heldur að skrifa um skuggann af hollenska landsliðinu í fótbolta né um 42 ára sjómennskuafmælið mitt. Þess í stað langar mig til að minnast ferfætts vinar míns sem bjó hér í blokkinni.

Grámann var fressköttur sem hélt að hann væri hundur, allavega hringaði hann skottið eins og íslenskur fjárhundur og var auk þess hvers manns hugljúfi. Ef hann sá einhvern koma að húsinu fylgdi hann með inn í húsið eins og Tryggur, en það var nóg að opna dyrnar út í garðinn og hann hélt rakleiðis út garð í stað þess að hlaupa upp til sín, en hann átti heima á hæðinni fyrir neðan mig. Um daginn var hann í rannsóknarleiðangri nærri Osta- og smjörsölunni þegar bíll kom og ók á hann og varð það hans bani.

Grámanns verður sárt saknað af íbúum hússins.


0 ummæli:Skrifa ummæli