miðvikudagur, júní 04, 2008

4. júní 2008 - Seinkum klukkunni!

Hugo Chavez, hinn alþýðlegi forseti Venezuela gaf út tilskipun á síðasta ári um breytta stöðu landsins í tímabeltinu miðað við 9. desember 2007, lét seinka klukkunni um hálfa klukkustund sem eftir það er í hádegisstað sólar klukkan 12 á hádegi í höfuðborginni Caracas. Sumir hægrisinnaðir fjölmiðlar á vesturlöndum tóku þetta óstinnt upp og hæddust að kappanum fyrir vikið, þar á meðal Blaðið eða 24 stundir, en í reynd var verið að gera hið eina rétta, færa klukkuna í rétt horf, miða klukkuna við stöðu sólar eins og gert hefur verið um aldir víðast hvar um heiminn.

Eins og allir vita sem vilja vita, þá er sólin hæst á lofti í Reykjavík um klukkan 13.28 á daginn, nærri einum og hálfum tíma eftir hádegið. Við austasta stað Íslands, Gerpi, er raunverulegt hádegi tæpum klukkutíma á eftir hinu rétta, þ.e. klukkan 12.54. Á Gerpi búa fáir (sic!) og ekki miklu fleiri á Seyðisfirði þar eystra en þar er hádegisstaður klukkan 12.56. Ef við hinsvegar skoðum hinn enda landsins, þá er Látrabjargið einna afvegaleiðast en þar er hádegi klukkan 13.38 svo að vissulega er þar réttur staður fyrir þá sem eru afvegaleiddir í lífinu.

Með því að seinka klukkunni um eina klukkustund kemur upp önnur og öllu betri staða. Hornfirðingar og Vopnfirðingar verða þá einna fremstir meðal jafningja með réttan hádegistíma, en næst þeim koma smáþorp á borð við Seyðisfjörð sem séð hefur stöðu sína betri fyrr á tímum, en útkjálkastaðir á borð við Reykjavík verða einungis 28 mínútum á eftir réttum hádegistíma. Hádegistíminn heima hjá mér verður klukkan 12.27 og von til að hinir afvegaleiddu verði leiddir á rétta braut sem munar heilli klukkustund, enda mun þá einungis muna 38 mínútum á tímanum hjá þeim.

Því hvet ég alla til að krefjast réttrar klukku fyrir Ísland, líka Seyðisfjörð.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item210687/


0 ummæli:







Skrifa ummæli