þriðjudagur, júní 03, 2008

3. júní 2008 - Eðlileg skjálftavirkni?

Þessi fyrirsögn á netsíðu Morgunblaðsins sló mig dálítið. Eðlileg skjálftavirkni! Hvað er eðlileg skjálftavirkni? Er hún fimm á Richter eða bara þrír? Eða er hún ofsafengin og sjö á Richter? Ég hefi aldrei kynnst eðlilegum jarðskjálfta.

Ég man 17. júní árið 2000. Ég var nýkomin í land eftir að hafa náð einu stykki síldarkvóta í sumarfríinu mínu frá Orkuveitunni og ég settist loks við tölvuna mína heima og kallaði upp fólkið mitt í Bandaríkjunum og Kanada á netinu. Linda frænka í Las Vegas sat við sína tölvu og þar sem við ræddum málin einni viku áður en hennar var von til Íslands í fyrsta sinn ævi sinnar, fór allt að skjálfa í kringum mig. Ég varð hrædd þar sem ég var uppi á sjöttu hæð í Hólahverfinu í Breiðholtinu. Einhverjar bækur duttu úr hillum og tölvuskjárinn hoppaði á borðinu. Ég færði mig fram á gang og ýtti tölvuskjánum aðeins inn á skrifborðið í leiðinni. Svo dró úr skjálftunum og ég færði mig inn aftur. Tíminn virtist lengi að líða og skjálftarnir harðir.

Jarðskjálfti verður aldrei eðlilegur. Hann er náttúrulegur en alls ekki eðlilegur. Ég mun aldrei venjast jarðskjálfta hversu oft sem ég kynnist þeim. Á fimmtudaginn var ég á öruggasta hugsanlega stað þegar jarðskjálftinn kom, í stjórnstöð Orkuveitunnar. Samt fylltist ég af beig þótt ekki fyndi ég fyrir sama ótta og fyrrum.

Á sunnudag fór ég og heimsótti starfsfélaga mína á Nesjavöllum. Þar höfðu öll kerfi staðist skjálftana þótt sjá mátti nýjar sprungur á milli byggingahluta virkjunarinnar þar sem gert er ráð fyrir hreyfingum. Ekki langt frá virkjuninni mátti sjá afleiðingar skjálftanna á fimmtudag og íbúar Selfoss, Hveragerðis og Ölfuss munu eiga lengi við eftirköstin af því sem gekk á.

Nei, skjálftavirkni verður aldrei eðlileg.


0 ummæli:Skrifa ummæli