laugardagur, maí 31, 2008

1. júní 2008 - Póstbáturinn


Ég skrifaði þessa frásögn á miðvikudaginn að beiðni 24 stunda í tilefni Sjómannadagsins. Blaðamaðurinn óskaði þess að fá að stytta greinina sem ég samþykkti fúslega. Á laugardagsmorguninn birtist svo frásögnin og hafði hún þá verið skorin niður við trog svo að neistinn í frásögninni var horfinn. Því tók ég mér það bessaleyfi að endurbirta frásögnina óstytta á blogginu mínu.

Ég var í mínum fyrsta túr til sjós á Jóni Þorlákssyni, gömlum nýsköpunartogara frá Reykjavík. Ég var fjórtán ára að aldri og enn blaut á bakvið eyrun. Jón Már, strákur ofan af Akranesi, nokkrum árum eldri en ég hafði tekið mig í kennslustund og varað mig við ýmsum þeim klækjum sem ég yrði örugglega beitt sökum reynsluleysis og aldurs. Fékk ég hjá honum ágæta fræðslu um hvernig ætti að trekkja upp togklukkur, sækja vakúm í fötu og gefa kjölsvínum og fleiri þau atriði sem nýliðar fengu gjarnan í sínum fyrsta túr.

Ekki fór ég varhluta af tilraunum skipsfélaga minna til að senda mig í allskyns erindi en sökum varnaðarorða Jóns Más tókst mér að víkja mér undan hrekkjunum.

“Póstbáturinn kemur í dag,” sagði mér einhver í heyranda hljóði.
“Já, já,” svaraði ég, “ég skal láta sem ég trúi þér.”
“Þetta er alveg satt. Póstbáturinn kemur alltaf á sunnudögum með nýjustu blöðin og selur okkur gos og sælgæti”

Svo leið sunnudagurinn og enginn kom póstbáturinn. Eitthvað hafa vaktfélagarnir fundið veikan blett á mér því þeir héldu áfram að klifa á póstbátnum vikuna á eftir, hann hefði ekki komist út vegna brælu og við fengjum bara tvöfaldan skammt af blöðum og nammi næsta sunnudag.

Svo kom annar sunnudagurinn á sjó. Ég fór í koju eftir morgunvaktina að venju, en þegar ég kom aftur í borðsal í kvöldmatinn áður en ég fór á næstu vakt, brá mér verulega. Menn sátu og voru að lesa nýjustu blöðin.

“Var þetta virkilega satt? Var póstbáturinn þá til eftir allt saman?” Ég fór að naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki trúað mínum kæru skipsfélögum sem sátu glottandi í borðsalnum með nýjustu blöðin fyrir framan sig.

Um kvöldið kom skýringin á nýjum dagblöðum. Skipverji á togaranum Surprise hafði veikst á útstíminu og verið sendur yfir til okkar sem vorum að ljúka veiðiferð svo hann kæmist fyrr undir læknishendur. Hann hafði að sjálfsögðu tekið blöðin með sér handa fréttaþyrstri áhöfninni á Jóni Þorlákssyni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli