föstudagur, maí 23, 2008

24. maí 2008 - Freymóðskar valkyrjur

Á tímum aukins frjálslyndis í ástarmálum í kringum 1970 heyrðust tvær hjárænar mótmælaraddir sem líktu sjáanlegum kvenmannsbrjóstum við klám af hinu versta tagi sem bæri að gera útlægt úr íslensku samfélagi hið bráðasta. Þessar tvær mótmælaraddir tilheyrðu þeim félögum Kristjáni Albertssyni rithöfundi og Freymóði Jóhannssyni sem einnig var kenndur við 12. september, listmálara og tónskáldi. Um tíma heyrðust þær raddir sem kölluðu mótmælin gegn kláminu freymóðsku. Ekki ætla ég að gerast svo djörf að geta mér þess til hvaða orð í íslensku máli átti að minna á freymóðskuna.

Í hádeginu á föstudag mættu nokkrar ungar og freymóðskar valkyrjur í Dómsmálaráðuneytið og hófu að þrífa þar innandyra. Þetta var þarft verk enda hefur ýmsu verið sópað út í horn og undir teppi þar á liðnum áratugum. Að sjálfsögðu mættu sjónvarpsmenn í ráðuneytið og filmuðu stúlkurnar við iðju sína, enda atlagan að ráðuneytinu þaulskipulögð.

Ekki var ég þó nógu ánægð með tiltektina. Það sem filmað var reyndist vera hálfgerður kattaþvottur og þá gleymdu þær að þvo ráðherranum á bak við eyrun, en vindþurrkaðir og veðurbarðir ættingjar mínir eiga á hættu allskyns sýkingar á milli eyrnanna í rokinu við Esjurætur, oft í marga ættliði.

-----oOo-----

Af gefnu tilefni vil ég taka fram að ég held með Ítalíu í Júróvisjón þetta árið.


0 ummæli:Skrifa ummæli