laugardagur, maí 03, 2008

4. maí 2008 - Stephen Whittle

Professor Stephen Whittle er ótrúlegur persónuleiki. Allt frá því hann fór í aðgerð til leiðréttingar á kyni, aðeins 19 ára gamall árið 1975, hefur hann talað opinskátt um reynslu sína og verið öðru transsexualfólki til fyrirmyndar og síðar transgender fólki. Hann er í fullu starfi sem prófessor í lagadeild við Háskólann í Manchester jafnframt öðrum hugðarefnum sínum sem fjölskyldufaðir, formaður bresku transgendersamtakanna Press for Change og sem forseti WPATH. (World Professional Association for Transgender Health sem og stjórnarmaður í Evrópsku transgendersamtökunum (TGEU) þar sem ég hefi einnig átt sæti. Ekki má heldur gleyma að hann hefur fengið sérstaka heiðursviðurkenningu úr hendi Bretadrottningar fyrir störf sín í þágu transgender fólks um allan heim. Þessi mikli baráttumaður er illa haldinn af MS-sjúkdómnum.

Þegar leið á seinnihluta aðrar ráðstefnu Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) sem haldin er í Berlín fyrstu daganna í maí árið 2008 í Schöneberg Rathaus, þessum fræga stað þar sem John F. Kennedy þóttist vera Berlínarbúi vorið 1963, var haldinn aðalfundur samtakanna. Ég baðst undan að vera kosin áfram í stjórn, enda illa haldin af peningaleysi þrátt fyrir ánægjulegan styrk frá Minningarsjóði Margrétar sem gerði mér kleift að sækja ráðstefnuna og aðalfundinn. Fyrir orð Stephen Whittle samþykkti ég að taka áfram þátt í starfi TGEU, þó án beinnar þátttöku í aðalstjórn. Á aðalfundinum hlaut ég samt 70 atkvæði til áframhaldandi setu í stjórn þegar sá sem hlaut flest atkvæðin hlaut 88 atkvæði og hefði ég lent í fjórða sæti af níu í stjórninni ef ég hefði samþykkt áframhaldandi setu í aðalstjórn. Með þessari kosningu hlaut ég afgerandi kosningu sem varamanneskja og "auditor"
Það sem bar þó af á aðalfundinum var að Justus Eisfeld formaður TGEU kaus að yfirgefa stjórnina vegna flutnings síns til Bandaríkjanna og á hann bestu þakkir skildar fyrir störf sín. Í hans stað var einróma kosinn formaður sá sem endalaust getur bætt á sig verkefnum, MS-sjúklingurinn sjálfur, Stephen Whittle.

-----oOo-----

Það var haldið teiti TGEU í Berlín á laugardagskvöldið. Að sjálfsögðu var ég í teitinu sem og opinni skemmtun á eftir, þrátt fyrir klukkutíma ferðalag suður til Schönefeld á hótelið sem er skammt frá flugvellinum. Ég sleppti því einfaldlega að skipta um föt í millitíðinni.

Þegar ég var nýkomin inn á skemmtistaðinn hitti ég Stephen Whittle og tókum við tal saman. Kom þá einhver glæsileg drottning labbandi framhjá okkur, Stephen horfði á hana og svo á mig og spurði af hverju ég væri ekki í pilsi eins og allar trönsurnar sem og hinar sem voru vel til hafðar.
“Því get ég svarað,” svaraði ég um leið og horfði niður eftir sjálfri mér í bol og leðurjakka og gallabuxum að neðan, “það er vegna þess að ég er ordinary transsexual”

Þá hló Stephen Whittle.


0 ummæli:Skrifa ummæli