sunnudagur, maí 18, 2008

18. maí 2008 - Dúa athugasemd

Það var tiltektardagur í lóðarfélaginu okkar á laugardaginn undir vökulum augum Dóru lóðarfélagsformanns sem sýndi okkur enga linkind. Þar sem ég var að hamast við að hreinsa undir rólunum spurði mig ein nágrannakonan:
“Ert þú Anna bloggari?”
Ekki gat ég neitað því þótt ég reyndi að gera sem minnst úr bloggskrifum mínum.
“Ég er Dúa,” segir konan um leið og hún fyllti plastpokann með laufblöðum frá því í fyrra.
“Ha, Dúa dásamlega?”
“Nei, nú er ég Dúa athugasemd eftir að ég sneri mér einvörðungu að því að gera athugasemdir við færslur annarra.”
Í gegnum hugann fóru meinlegar athugasemdir Dúu dásamlegu þegar ég hafði einhverju sinni hlaupið á mig í bloggfærslum mínum.
“Hvar býrð þú”, spurði ég.
“Beint á móti þér”
Dúa reyndist búa eftir allt hinum megin við garðinn, svo nálægt mér að við hefðum getað kallað athugasemdirnar yfir garðinn í stað þess að senda allt í gegnum netið.


0 ummæli:Skrifa ummæli