föstudagur, maí 16, 2008

16. maí 2008 - Góðir grannar

Það var tiltektardagur í blokkinni þar sem ég bý á fimmtudagskvöldið. Flestir íbúarnir tóku til hendinni, þrifu og skrúbbuðu, máluðu og löguðu hitt og þetta. Slík var samstaðan að börn og jafnvel heimiliskettir tóku þátt í atinu þótt lítið gagn yrði að þeim síðarnefndu og þá fremur ógagn.

Að minnsta kostu urðu nágrannar mínir fyrir neðan mig ekkert hrifnir þegar Hrafnhildur ofurkisa bauðst til að aðstoða mig við að mála svalahandriðið hjá þeim en svört kisan skildi eftir hvít klóspor frá svölunum og yfir allt parketið á íbúðinni þeirra.

Það er viðbúið að ruslakarlarnir fái ofbirtu í augun þegar þeir sækja ruslið á föstudagsmorguninn. Þá má ekki gleyma að sumir nágrannarnir fylgdust í laumi með aðförunum á númer 56 og langaði til að vera með, eða öllu heldur, að slík væri samstaðan í þeirra stigagangi að allir legðust á eitt um að gera sinn stigagang betri. En óttist eigi, á laugardag verður lóðarhreinsidagur og þá verður nóg af verkefnum fyrir alla sem vilja taka þátt í að gera nágrennið aðeins betra en áður.

Með samstöðunni og góðum nágrönnum getum við gert nærumhverfið mun hlýlegra en áður og verið öðrum til hvatningar :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli