mánudagur, maí 26, 2008

26. maí 2008 - Hægri umferð

Það eru kannski tuttugu ár síðan ég sat í bíl hjá eldri manni á leið okkar suður í Kópavog. Þar sem maðurinn ók löturhægt á vinstri akrein á Kringlumýrarbrautinni eins og komin væri vinstri umferð á ný, spurði ég manninn af hverju hann héldi sig á vinstri akrein á þessum hraða?
„Það er til að halda niðri umferðarhraða,“ svaraði maðurinn án þess að blikna. Ég vil taka fram að þessi maður er löngu hættur að aka bíl.

Það væri sem að bera í bakkafullan lækinn að láta mig fjalla um daginn sem skipt var yfir í hægri umferð, enda var ég víðs fjarri góðu gamni úti á sjó þennan dag fyrir réttum 40 árum. Þá var ég ekki einu sinni komin með bílpróf, að vísu komin með skellinöðrupróf, en vantaði enn nokkra mánuði í að öðlast aldur til bílprófs. Um leið er ástæða til að minnast alls hins góða sem og hins slæma sem þessi breyting hafði í för með sér.

Árin fyrir breytinguna hafði umferðarslysum fjölgað illilega og það var ljóst að eitthvað þyrfti að gera. Flestir bílar hér á landi voru ætlaðir fyrir hægri umferð (fyrsti bíllinn minn var reyndar með hægri handar stýri fyrir vinstri umferð). Þar sem vitað var að margir ættu erfitt með að venjast hægri umferð var hámarkshraði lækkaður víða um tíma, umferðaráróður stóraukinn, en fólk var um leið hvatt til að brosa í umferðinni og sýna tillitssemi gagnvart því fólki sem átti erfitt með að venjast breytingunni.

Þetta gekk eftir. Þótt smáslysum fjölgaði eitthvað í kjölfar breytingarinnar, fækkaði alvarlegum umferðarslysum verulega fyrstu árin á eftir. Fólk notaði stefnuljósin, athyglin var í hámarki og fólk brosti. Í dag er sem allt sé komið í sama farið og var. Sumir vita ekki til hvers stefnuljósatakkinn er, blaðra endalaust í símann í akstri og halda að það sé komin vinstri umferð. Sumir hafa reyndar haldið sig á vinstri akrein allar götur síðan 1968 og telja það vera hið eina rétta.

Kannski þarf nýtt umferðarátak til að bæta umferðarmenninguna á Íslandi, þó ekki væri nema í minningu átaksins og breytingarinnar í hægri umferð frá 1968.


0 ummæli:







Skrifa ummæli