þriðjudagur, desember 02, 2008

´2. desember 2008 - Merkisdagar

1. desember hefur löngum þótt mikill merkisdagur. Ekki er það eingöngu vegna minningar um fullveldisdag þjóðar sem glataði fullveldi sínu nokkrum dögum áður en hún hélt upp á 90 ára fullveldi sitt eða alnæmisdagsins, heldur og miklu fremur af persónulegum ástæðum. Í gær voru nefnilega komin tólf ár frá því er ég hóf formlega störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur, en af því að daginn bar upp á sunnudag, var fyrsti starfsdagurinn 2. desember

Ekki ætla ég að fjölyrða mikið um ráðningu mína. Það breytir ekki því að ég er enn við svipuð störf og fyrir tólf árum, þ.e. við stýringu og eftirlit með framleiðslu og dreifingu á heitu vatni þótt verkefnin hafi aukist verulega á þeim árum sem liðin eru frá því ég hóf störf hjá Hitaveitunni.

Það er eðlilegt að ég sæktist eftir slíku starfi eftir heimkomu mína til Íslands árið 1996. Ég hafði unnið við svipuð störf í Stokkhólmi í nokkur ár áður en heim var komið og líkað vel.

Ef allt fer að óskum, mun ég geta haldið áfram störfum hjá Orkuveitunni, sem stofnuð var fyrir tæpum áratug úr Hitaveitu og Rafmagnsveitu og síðar einnig Vatnsveitu, í tíu til tólf ár til viðbótar áður en farið verður á eftirlaun. Ég hefi ekki áhuga fyrir að skipta um starf og tel að ég sé best niðurkomin á þessum stað þar til starfsævinni lýkur.

Ég viðurkenni alveg að stundum togar sjórinn aðeins í mig. Um leið geri ég mér grein fyrir því að á mínum aldri fer maður ekki á sjóinn til framtíðarstarfa. Þeim hluta ævinnar er lokið. Ég get þó vel hugsað mér að skreppa einstöku ferðir á sjóinn til afleysninga og viðhalds þekkingar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli