fimmtudagur, desember 25, 2008

25. desember 2008 - Lífið var fjölbreytt fyrir 40 árum

Það skeði margt fyrir 40 árum ekki síður en nú, bæði gott og slæmt. Þá var kreppa eins og nú. Það voru miklar deilur í þjóðfélaginu og þegar Þorláksmessuslagurinn var í Bankastræti, var ég úti að aka með ökukennara. Mér lá á svo mér tækist að ná bílprófinu á afmælisdaginn. Í einhverjum bílskúr úti í bæ var Kobbi bróðir að skrúfa síðustu skrúfurnar í niðursetningu á nýuppgerðri vél í gömlum Ford árgerð 1955.

Á aðfangadag jóla árið 1968 var bíllinn tilbúinn og prófaður. Kobbi bróðir bauð mér með austur á Hvolsvöll, en systir okkar hafði náð sér í eiginmann úr Fljótshlíðinni og tilvalið að heimsækja þau yfir jólin. Systur okkar var tilkynnt að við ætluðum að vera komin austur klukkan fimm og svo var lagt af stað úr Reykjavík klukkan fjögur. Ekki þurfti bróðir að hafa áhyggjur af hraðanum því núverandi yfirvald á Selfossi var þá í jólaleyfi heima á Írafossi frá 3. bekk í MR.

Á þessum árum var að sjálfsögðu malarvegur alla leið og það var kalt, en ekki mikil hálka. Eins og áður sagði var bíllinn með nýuppgerða vél og ágætlega kraftmikill og bróðir lét gamminn geysa. Allt gekk vel í fyrstu og er við fórum í gegnum Selfoss sáum við fram á að verða ekki mikið á eftir áætlun. Nokkru austar komum við að bíl úti í vegkanti með vélarhlífina opna og bílstjórinn að bjástra eitthvað. Þetta var stór og gamall amerískur kaggi sem var meira en bróðir minn gat látið afskiptalaust og hann fór að aðstoða bílstjórann sem virtist á svipuðu reki og við, kannski lítið eldri.

Kannski var bensínstífla að hrjá kaggann, kannski frosið í leiðslum, en ekki fór hann í gang. Eftir heilmikið basl gáfust þeir upp á viðgerðinni og ákváðu að draga bílinn heim til stráksa lengst upp í Hreppa og gekk sú ferðin ágætlega. Eftir að hafa skilað honum heim á hlað, var haldið áfram austur á Hvolsvöll og er þangað var komið, var klukkan um níu á aðfangadagskvöld jóla. Voru systir mín og mágur þá farin að óttast um okkur og mágur minn að gera sig kláran að hafa samband við björgunarsveitina á Hvolsvelli þar sem hann var sjálfur meðlimur.

Það má svo fylgja sögunni að er við héldum áleiðis til Reykjavíkur á annan dag jóla, komst bíllinn með nýuppgerða vélina aldrei lengra en upp í Kambana en þar gaf hann upp öndina með kolúrbrædda vél.

Á aðfangadagskvöld jóla 2008, fjörtíu árum síðar, mætti ég á réttum tíma í mat til systur minnar og mágs sem nú eru ein eftir í kotinu sem nú er í Kópvogi og tilvalið að rifja upp gamlar minningar.


Með þessum orðum óska ég öllum áframhaldandi gleðilegra jóla.


0 ummæli:Skrifa ummæli