föstudagur, nóvember 28, 2008

28. nóvember 2008 – Hversu há þurfa iðgjöld að vera til að standa undir vöxtum og hagnaðarvon af 42 milljarða fjárfestingu?

Um daginn bauð Kaldbakur hf, eignarhaldsfélag Þorsteins Más Baldvinssonar, hvorki meira né minna en 42 milljarða í Tryggingamiðstöðina. Þessi háa upphæð minnir ekki aðeins á fjárglæfrastarfsemina sem átti sér stað í kringum Sterling flugfélagið, heldur virðist nánast vonlaust að ná henni til baka nema með stórfelldum iðgjaldahækkunum ef heiðarlega er staðið að henni. Síðar bárust fréttir af því að ætlunin væri að láta Landsbankann kaupa hlut í félaginu með því að greiða stóran hluta verðsins fyrir félagið.

Ég fór að velta fyrir mér hve miklar rekstrartekjur umfram rekstrargjöld þyrftu að vera til að geta staðið undir kaupunum? Svarið er einfaldlega að ég hefi ekki hugmynd um það, en það hljóta að vera mjög háar rekstrartekjur. Sjálf minnist ég ágætlega ítrekaðra kvartana tryggingarfélaga vegna of lágra iðgjalda, en á sama tíma, talsverðan hagnað tryggingafélaganna. Þá hefi ég sjálf verið í viðskiptum við Tryggingamiðstöðina undanfarin ár og komist vel frá þeim viðskiptum við félagið og mjög svo þægilegt og þjónustulipurt starfsfólk þess. Sömuleiðis hefur Tryggingamiðstöðin staðið sig ágætlega í samkeppni við önnur tryggingafélög hvað verðlag snertir, allavega í mínu tilfelli með eina íbúð og einn bíl.

Þó fer að hrikta í gagnkvæmu trausti þegar heyrist um baráttuna um eigendahlutinn. Ég er ekki viss um að iðgjöld mín og annarra þoli þá hækkun sem vextir af 42 milljörðum krefjast. Þá er ég heldur ekkert ginnkeypt fyrir fjármálaævintýri sömu gerðar og Sterling sukkið og sem leiðir ágætlega rekið fyrirtæki beinustu leið í gjaldþrot eftir að hafa náð því lánsfé sem hægt er út úr bönkunum á minn kostnað.

Því létti mér að heyra að Landsbankinn hefur ákveðið að taka ekki þátt í sukkinu með Tryggingamiðstöðina, en vona um leið að takist að halda félaginu á floti sem lengst, helst án þátttöku fjárglæframanna.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item239236/


0 ummæli:







Skrifa ummæli