þriðjudagur, nóvember 25, 2008

25. nóvember 2008 - Margrét Pétursdóttir var best!

Þegar Íslendingabók kom á netið gjörbreyttust ættir mínar. Bæði bættist mikill fjöldi ættingja við sem ég hafði ekki haft hugmynd um, en svo tapaðist heill ættleggur þegar leiðréttingar voru gerðar á ættfærslunni í Íslendingabók. Duttu þá margir frægðarpiltarnir út, m.a. Björgvin Halldórsson fyrrverandi frændi minn, Ómar Ragnarsson fyrrverandi ættingi minni og Steinn Ármann Magnússon fyrrverandi ættingi minn. Í stað þeirra fékk ég fátæka gyðingastúlku á Bessastöðum, ekki þessa núverandi, heldur eina bláfátæka sem kom með hörmangarakaupmönnum snemma á 18. öld.

Öllu betri var árangurinn í föðurættinni. Langamma mín þar sem enginn vissi nein deili á fjölskyldu hennar, reyndist vera ein í hópi 22 barna föður síns og er ég sífellt að rekast á nýtt frændfólk í þeim ættleggnum. Meðal ættingja í þeirri áttinni má nefna Hörð Torfason söngvaskáld og er ég las ævisögu Péturs heitins Sigurðssonar alþingismanns, reyndist hann kominn af bróður langömmu minnar og fjórmenningur við mig.

Síðastliðinn laugardag tók hópur á fésbókinni sem kallar sig neyðarstjórn kvenna, til sinna ráða og klæddi styttuna af Jóni Sigurðssyni í bleikan kjól. Einhver benti mér á að ein í hópnum væri dóttir Péturs sjómanns. Það tók mig ekki langan tíma að finna hana í ævisögunni um Pétur sem og Íslendingabók og flýtti ég mér að óska fésbókarvináttu við frænkuna á fésbókinni.

Ég beið svo í ofvæni eftir að heyra í Margréti í sjónvarpsútsendingu af borgarafundinum í Háskólabíó á mánudagskvöldið. Hún kom þar fram, sá og sigraði eins og hennar var von og vísa. Sjálf fylltist ég stolti yfir nýfundinni frænku minni á fundi þar sem ég var ósátt við margt sem ég sá og heyrði, bæði af hálfu stjórnmálamanna og almennings. Margrét Pétursdóttir fór heim sem sigurvegari kvöldsins.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/24/bankaleyndina_burt/


0 ummæli:







Skrifa ummæli