sunnudagur, nóvember 09, 2008

9. nóvember 2008 - Þegar þeir síðustu verða fyrstir er gaman!


Við sem höfum fylgst með gæfu og ógæfu Fótboltafélags Halifaxhrepps höfum ástæðu til að fagna í dag og er löngu kominn tími til fagnaðar.

Það var fyrir mörgum árum sem Gísli Einarsson þáverandi ritstjóri Skessuhorns stofnaði aðdáendaklúbb Fótboltafélags Halifaxhrepps í Vestur-Jórvíkurskíri í Englandi, en liðið barðist þá hetjulegri baráttu við að halda sér í langneðstu deild (fjórðu deild) í ensku boltasparki. Þegar aðdáendaklúbburinn var sem stærstur náði hann um sjö hundruð meðlimum, flestum í Lundarreykjadalnum en einnig annars staðar á Vesturlandi auk nokkurra aðdáenda á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningurinn dugði þó skammt því svo fór að lokum að Halifaxhreppur fann gatið á botninum og féll niður í kvenfélagsdeildina (5. deild sem þá var kennd við Nationwide Conference). Árangur félagsins í þeirri deild var ákaflega misjafn, eða allt frá því að berjast um endurnýjaða stöðu í langneðstu deild til þess að berjast fyrir sæti sínu í kvenfélagsdeildinni.

Sjálf heimsótti ég félagið einu sinni er ég var í heimsókn í næsta hrepp sem Gísli kennir reyndar við Reykholtsdalinn (Rochdale). Sú heimsókn var félaginu ekki framdráttar því tveimur árum síðar, þ.e. á síðastliðnu sumri varð það gjaldþrota.

Heimamenn í Halifaxhreppi gátu ekki hugsað sér að láta félagið deyja drottni sínum og fógetanum og endurreistu það sem samvinnufélag og veittu því inngöngu í Samband enskra samvinnufélaga. Það dugði þó ekki til því breska knattspyrnusambandið, sem er álíka grettið og Gordon frá Brúnastöðum, dæmdi félagið niður um þrjár deildir og varð það því að byrja á botninum á áttundu deild nú í haust.

Haustið byrjaði illa. Það voru ekki komnir margir leikir er Halifaxhreppur var í hópi neðstu liða með þrjá tapaða leiki og eitt jafntefli. Þá ákvað Jimmy Vinningur þjálfari að svona mætti ekki ganga lengur og skipaði strákunum okkar að bíta í skjaldarrendur og sýna mótherjunum hvað í þeim bjó. Og Halifaxhreppur fór að vinna leiki.

Laugardaginn 8. nóvember 2008 náði Fótboltafélag Halifaxhrepps loksins því langþráða takmarki að komast á topp áttundu deildar enskrar knattspyrnu. Mega nú Mannshestahreppur og Lifrarpollur og Rassenal og Efratún fara að gæta sín því nú loksins er sigurgangan óendanlega hafin af alvöru!


0 ummæli:







Skrifa ummæli