fimmtudagur, nóvember 13, 2008

13. nóvember 2008 - Kæra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir!

Í fyrradag settir þú ofan í forystu Alþýðusambandsins fyrir þá kröfu að vilja setja ákveðna ráðherra úr embætti. Skiljanlega hefur þú ekki áhrif á samstarfsflokkinn, en slíkt er athafnaleysið í ríkisstjórn Íslands síðan þú veiktist að vandamálin eru þau verstu síðan á Sturlungaöld og afleiðingarnar eru þær verstu síðan í móðurharðindunum. Ef þetta er ekki nóg til að ráðherrar segi af sér, þá er Ísland versta gerð af bananalýðveldi.

Ég veit það alveg að umræddur ráðherra Samfylkingar sem þú varðir í fyrradag, er hinn myndarlegasti piltur og ljómaði eins og fermingardrengur við hlið aðstoðarmanns Davíðs Oddssonar á fleiri blaðamannafundum í upphafi kreppunnar. Það er bara ekki nóg. Rétt eins og fjármálaráðherrann, hefur hann takmarkaða þekkingu á þeim málefnum sem hann tók við eftir myndun núverandi ríkisstjórnar. Að auki ber hann ábyrgð, ekki aðeins á eigin gjörðum, heldur og undirmanna sinna sem brugðust með skelfilegum afleiðingum.

Bjarni Harðarson sýslungi Björgvins framkvæmdi persónulegt skammarstrik og galt fyrir það með þingmennsku sinni. Þrátt fyrir það ber ég virðingu fyrir Bjarna fyrir að taka ábyrgð á gjörðum sínum og er hann maður að meiri fyrir bragðið. Afglöp Björgvins og Árna eru ekki persónuleg eins og Bjarna, en þau eru pólitísk, falla undir pólitíska ábyrgð á störfum undirmanna og ollu íslensku þjóðinni hundruða milljarða tjóni. Þess vegna á sagnfræðingurinn Björgvin að taka pokann sinn úr embætti viðskiptaráðherra rétt eins og dýralæknirinn úr embætti fjármálaráðherra og færa sig í sæti óbreytts þingmanns og láta öðrum eftir ráðherraembætti sitt.

Það er fleira sem ég er ósátt við í störfum þínum þessa dagana. Á meðan þú varst á sjúkrahúsi í útlöndum hóf Geir Hilmar Haarde að dansa, ekki við næstsætustu stelpuna á ballinu, heldur við óþekka óknyttastrákinn í Svörtuloftum. Sú taug sem tengir þá saman frá því þeir léku sér saman í menntaskóla er rammari en hver sú kona sem reynir að ógna ástarsambandi þeirra. Allt í einu ert þú farin að hegða þér eins og sú næstsætasta. Losaðu þig við Geir og sendu óknyttastrákinn í skammarkrókinn. Þeir eru ekki verðir aðdáunar þinnar og þú ein getur losað um tilfinningabönd þeirra.

Loks langar mig til að viðra eitt ljótt mál sem þú hefur ekki viljað taka afdráttarlausa afstöðu til. Breskur hryðjuverkaher er á leið til landsins og þrátt fyrir einarða afstöðu þína í friðarmálum opnar þú fyrir þann möguleika að þessir sömu hermenn, sumir kannski blóðugir upp að öxlum eftir dráp á saklausu fólki í Írak, eigi að vernda okkur gegn breska heimsveldinu á meðan við snæðum jólasteikina. Ég vil ekki sjá þessa undirmenn Gordons frá Brúnastöðum hér á landi um jólin gæta okkar fyrir Gordon frá Brúnastöðum. Gordon hefur gert nóg af sér samt sem og þessir legátar hans. Það er til nóg af enskum friðarsinnum sem eiga frekar skilið að vera boðið til hinnar friðelskandi þjóðar á Íslandi um jólin.

Svo skulum við ganga til samninga við Evrópusambandið um fulla og óskoraða aðild að sambandinu og gera það fljótt og vel.


0 ummæli:Skrifa ummæli