miðvikudagur, mars 11, 2009

12. mars 2009 - Baráttuhetja myrt


Haustið 2005 tók ég þátt í fyrsta þingi Evrópsku Transgendersamtakanna sem haldið var í Vínarborg í Austurríki. Þetta var í fyrsta sinn sem mér auðnaðist að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi transgender fólks, en þarna hittust tæplega 130 transgender og intersex einstaklingar frá mörgum löndum Evrópu til skrafs og ráðagerða og til að bindast samtökum um réttindamál sín.

Þarna sameinaðist fólk frá Portúgal, Tyrklandi, Bosníu, Þýskalandi, Rússlandi, Finnlandi og raunar flestum ríkjum Evrópu, tengdist í samtökunum Transgender Europe og þar sem ég sat í stjórn næstu þrjú árin á eftir.

Meðal fólks sem ég kynntist á þinginu voru Ebru og Demet, tvær transkonur sem höfðu átt undir högg að sækja í heimalandi sínu, Tyrklandi, en þær voru báðar ákafar baráttukonur fyrir réttindum transgender einstaklinga í samtökunum Lambda Istanbul og höfðu sýnt af sér ótrúlegan kjark með því að koma fram opinberlega í Tyrklandi og segja frá tilfinningum sínum og skoðunum, í landi sem hatar allt sem ekki fellur inn í þjóðfélagsnormið. Ástandið sem Ebru og Demet lýstu fyrir mér, var hrollvekjandi. Transfólki er misþyrmt, rekið úr vinnu, ofsótt, nauðgað, jafnvel myrt, yfirleitt allt gert til að gera því lífið leitt.

Ég hitti Ebru og Demet aftur á öðru þingi TGEU sem haldið var í Berlín vorið 2008. Á þeim tíma sem liðinn var frá fyrsta þinginu hafði margt áunnist, það var farið að hlusta á þær. Þær töldu sig finna fyrir bættum viðhorfum í samfélaginu í sinn garð og annarra sem voru í svipaðri aðstöðu, kannski fyrir þá sök að þær börðust opinberlega fyrir réttindum transgender fólks og þær töluðu fyrir réttindunum án þess að vera á bak við luktar dyr.

Fyrir skömmu síðan barst Ebru alvarleg hótun frá ókunnum aðilum í Istanbul, nógu alvarleg til að hún sá ástæðu til að hafa samband við lögreglu og óska verndar. Hún hafði oft fengið hótanir áður, en nú fannst henni sem alvara væri á bakvið og hafði því samband við lögregluna. Lögreglan sá ekki ástæðu til að verða við óskum hennar og þann 10. mars 2009 fannst hún myrt á heimili sínu í Istanbul.

Þótt Ebru sé fyrsta baráttukonan úr Evrópsku transgendersamtökunum til að falla fyrir hendi morðingja, er hún alls ekki fyrsta transgender manneskjan til að verða fórnarlamb hatursglæps af þessu tagi, en árlega falla á milli 20 og 30 transgender manneskjur fyrir hendi morðingja, langflestar lítt þekktar sem hafa lifað í felum fyrir sviðsljósi forvitninnar.

Mig langar til að biðja alla sem lesa orð mín að minnast Ebru með hlýhug og virðingu.

-----oOo-----

Á myndinni er Ebru til vinstri og Demet til hægri. Á milli þeirra er formaður frönsku transsamtakanna Caritig, Armand Hotimski.


0 ummæli:







Skrifa ummæli