föstudagur, mars 06, 2009

7. mars 2009 - Um útflutning ferskfisks

Fyrir um þrjátíu árum var talsverð umræða á Íslandi, þar sem þingmenn Alþýðubandalagsins og fleiri vildu koma í veg fyrir að íslensk fiskiskip sigldu með aflann óunninn til hafna erlendis og seldu hann þar á mörkuðum. Það var eðlilegt að sumir sæju ofsjónum yfir því bruðli sem fólst í því að halda skipum frá veiðum í marga daga á meðan verið var að sigla með aflann svo ekki sé talað um tap sjómannsins sem fiskaði ekki á meðan stóð á siglingunni. Reyndin var hinsvegar sú að söluverðið á ferskfiski var hærra á mörkuðum erlendis en fékkst fyrir fullunnar afurðir á mörkuðum á helstu mörkuðum okkar í Bandaríkjunum og því voru þessar siglingar þjóðhagslega hagkvæmar umfram fullvinnsluna í landi, enda dó þessi umræða út um leið og sannleikurinn varð ljós.

Nú er þessi umræða komin af stað á nýjan leik. Enn og aftur á fiskvinnslan í landi að bjarga þjóðarbúinu á sama tíma og markaðir erlendis fyrir frosinn fisk eru í lágmarki. Um leið er mér ómögulegt að mótmæla þessum nýgömlu kröfum einfaldlega af því að ég hefi ekki fylgst með þróun mála síðustu áratugina.

Það hefur margt breyst á síðustu þrjátíu árum. Það er orðið mun ódýrara að senda frosinn fisk til útlanda í gámum og því er útflutningurinn með ferskan fisk orðinn ódýrari en þegar heil skipshöfn sigldi með nokkur tonn af fiski á markað í Hull og Grimsby. Um leið veit ég ekki hvernig staðan er á fiskmörkuðum fyrir frosinn fisk, hvort frosni fiskurinn er orðinn verðmætari en ferskfiskurinn? Hvort heldur er, er nauðsynlegt að kanna möguleikana út í ystu æsar áður en farið verður út í að rústa ferskfiskmörkuðum fyrir vafasama atvinnubótavinnu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli