sunnudagur, mars 08, 2009

8. mars 2009 - Sigríður Ingibjörg Ingadóttir


Á tímum þegar prófkjör eru enn notuð til að raða fólki á framboðslista, getur stundum reynst nauðsynlegt að kynna fólk til sögunnar sem gefur kost á sér í prófkjöri. Í prófkjöri eins og nú þegar sáralitlir peningar eru til í sjóði, veitir ekkert af að beita öllum tiltækum ódýrum og ókeypis ráðum til að auglýsa sinn frambjóðanda.

Þrátt fyrir fullt og oftast mikið traust mitt til annarra frambjóðenda Samfylkingarinnar, og að þeim öllum ólöstuðum, hefi ég heitið stuðningi mínum í fyrsta lagi til handa Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem er í framboði í þriðja til fimmta sæti í Reykjavíkurkjördæmum. Það er stutt síðan ég kynntist henni, man fyrst eftir henni í tengslum við kosningarnar 2007, en vissi þá engin frekari deili á henni. Það var svo ekki fyrr en við bankahrunið sem nafn hennar heyrðist fyrst fyrir alvöru þrátt fyrir mikið og gott starf í grasrót Samfylkingarinnar, en hún hafði þá setið um skeið í valdalausu bankaráði Seðlabankans, en sem slík axlaði hún sína ábyrgð og sagði af sér í kjölfar hrunsins. Síðan þá hefur hún verið eins og rísandi sól á himni jafnaðarstefnunnar.

Sigríður er ung, rúmlega fertug. Hún er fordómalaus og hún er feministi sem kom úr kvennahreyfingunni til móts við Samfylkinguna. Hún er hugrökk og heiðarleg og vel menntuð í sagnfræði og hagfræði, en er í leyfi frá störfum í Félags- og tryggingamálaráðuneytinu þar sem hún starfar við húsnæðismál og almannatryggingamál auk þess sem hún er formaður stjórnar Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

Þess má geta að föðuramma Sigríðar var Ólafía Ingibjörg Óladóttir verkakona í Vestmanneyjum og baráttukona í verkakvennafélaginu Snót, hálfsystir Páls Eggerts Ólasonar lögfræðings og fræðimanns, en í móðurættina er hún komin frá Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit og því fjarskyld mér í gegnum Kjósverja.

Sigríður Ingibjörg er gift Birgi Hermannssyni og eiga þau fjögur börn.

Frekar en að mæra hana frekar vísa ég á heimasíðu hennar og hvet Samfylkingarfólk í Reykjavík til að leggja henni lið í prófkjörinu sem hefst á mánudag, en aðra til að muna hana í samtölum við Samfylkingarfólk í Reykjavík.

http://sigriduringibjorg.is/


0 ummæli:







Skrifa ummæli