þriðjudagur, mars 17, 2009

17. mars 2009 - Loksins Loksins

Nú er það ljóst að Fjármálaeftirlitið hefur sent mál nokkurra lífeyrissjóða til sérstaks saksóknara til rannsóknar. Það kemur mér ekki á óvart, enda hefi ég sjálf tapað stórfé á þessum sömu lífeyrissjóðum.

Það er þó eitt sem ég skil ekki alveg. Lífeyrissjóðurinn Kjölur er settur undir tilsjón Viðars Lúðvíkssonar, en lífeyrissjóður Eimskipafélagsins er settur undir tilsjón Láru V. Júlíusdóttur. Fyrir um tveimur árum rann lífeyrissjóður Eimskipafélagsins inn í lífeyrissjóðinn Kjöl sem þá var stofnaður af nokkrum lokuðum lífeyrissjóðum, þ.e. auk Eimskipafélagsins, lífeyrissjóði Flugvirkjafélagsins, starfsmanna Olíverslunar Íslands, Mjólkursamsölunnar og Áburðarverksmiðjunnar ef ég man rétt. Sjálf á ég umtalsverða fjármuni í lífeyrissjóði Eimskips/Kili eftir margra ára störf hjá Eimskip.

Það var haldinn fundur í Íslenska lífeyrissjóðnum um miðjan desember og þar var kynnt mikið tap sjóðsins eða nærri þriðjungur að raunvirði. Þar fór nokkur kynning fram á því hvaða fyrirtækjum hafði verið fjárfest í og það voru ekki falleg nöfn í ljósi kreppunnar. Viku síðar (tveimur dögum fyrir jól) var haldinn fundur í lífeyrissjóðnum Kili og þar mætti sami sjóðsstjóri og svaraði fyrir verk sín. Tapið var líka ótrúlega svipað og í Íslenska lífeyrissjóðnum. Þar var fundargestum neitað um að sjá nöfn fyrirtækjanna sem fjárfest hafði verið í, en stjórnarformaður Kjalar fullyrti að einungis væri um að ræða mjög traust og áreiðanleg fyrirtæki.

Þess má geta að stjórnarformaður lífeyrissjóðsins Kjalar er nú starfsmaður eins þeirra fyrirtækja sem nú eru í eigu Stoða hf (FL-grúpp). Sjálf sá ég enga ástæðu til að halda áfram viðskiptum við Íslenska lífeyrissjóðinn og flutti séreign mína yfir á lífeyrisbók Landsbankans. Ég get hinsvegar ekki flutt eign mína í lífeyrissjóðnum Kili neitt og því háð duttlungum þeirra sem þar ráða ríkjum.

Án þess að ég viti neitt, þá grunar mig að tveir aldnir heiðursmenn frá Eimskip hafi þrýst á kröfur þess að mál umræddra lífeyrissjóða voru send til sérstaks saksóknara frá Fjármálaeftirlitinu, þeir Kristján Guðmundsson fyrrum skipstjóri og Sigurður Jónsson fyrrum yfirvélstjóri, en báðir voru þeir mjög ósáttir við afgreiðslu mála á fundinum 22. desember og þeirra leyndar sem málið var hjúpað.

Þeim sé þökk fyrir að halda okkur vakandi fyrir spillingunni.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/03/17/fimm_lifeyrissjodir_i_rannsokn/


0 ummæli:







Skrifa ummæli