laugardagur, september 11, 2010

11. september 2010 – Kærðir ráðherrar

Nú hefur meirihluti þingmannanefndarinnar svokölluðu lagt til að fjórir fyrrum ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm vegna brota í embætti í hruninu og að þeir verði dæmdir, ef ekki fyrir ráðherraábyrgð skv 4. gr laga um landsdóm, þá fyrir brot á 141. gr hegningarlaganna. Ég er þessu ósammála.

Það má vel vera að ég sé hlutdræg í málinu þar sem ég er málkunnug Björgvin Sigurðssyni en þekki Ingibjörgu Sólrúnu orðið sæmilega allt frá þeim tíma er hún stjórnaði Reykjavíkurborg með miklum sóma. Það breytir ekki því að ég tel málshöfðun fyrir landsdómi var mjög varhugaverðan kost í þessu tilfelli, ekki síst vegna þess að hrunið er afleiðing nýfrjálshyggjunnar og stjórnarstefnu ársins 2002 þegar bankarnir voru einkavinavæddir.

Það má vel vera að hægt verði að sakfella fjórmenningana fyrir landsdómi, en ég tel litlar líkur ef nokkrar á að slíkur dómur stæðist fyrir mannréttindadómstól Evrópu. Þarna á að dæma fólk til refsingar fyrir einföldu dómstigi án möguleika á áfrýjun til æðra dómsstigs innanlands, en það er annað verra. Alþingi kærir ráðherrana, en skipar jafnframt meirihluta dómara í sama máli, en ég hélt að slíkur málatilbúningur væri ólöglegur með dómi mannréttindadómsstólsins fyrir tuttugu árum síðan.

Að ráðherrakærunum frátöldum er ég sammála niðurstöðu þingmannanefndarinnar að svo miklu leyti sem ég hefi lesið um málið.

P.s. Ætli fyrirsögn Moggans í kvöld hafi verið tilviljun eða gleymdi Mogginn Geir Haarde viljandi:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/11/alvarleg_vanraeksla_a_starfsskyldum/


0 ummæli:







Skrifa ummæli