mánudagur, september 06, 2010

6. september 2010 - Á að slá út lekaliðanum?

Þessa dagana er hvatt til þess á Facebook og víðar að fólk sameinist um að slá út lekaliðum sínum í fáeinar mínútur til að mótmæla verðhækkunum á rafmagni. Það að mótmæla með því að hætta að versla tiltekna vöru eða versla í tileknum verslunum er skiljanlegt, en þessi mótmæli eru samt öllu vafasamari.

Ef fjöldi fólks slær út lekaliðanum hjá sér í fáeinar mínútur verða áhrifin hverfandi, jafnvel þótt við ímyndum okkur að fimmtíu þúsund heimili á Reykjavíkursvæðinu slái út lekaliðanum hjá sér í hálftíma eða klukkutíma að kvöldi til. Einustu áhrifin sem það veldur eru að álagstoppurinn að kvöldi verður mun seinna en annars verður og því betri dreifing á sólarhringsnotkuninni fyrir dreifingaraðila rafmagnsins. Margir geta hinsvegar skapað sér vandræði, t.d. ef þeir gleyma að slökkva á borðtölvum og öðrum mjög viðkvæmum raftækjum áður en þeir slá út lekaliðanum svo ekki sé talað um blessaðar vekjaraklukkurnar sem margar fara í núllstillingu í hvert sinn sem rafmagnið fer af.

Það er einu sinni svo að hinir stóru notendur rafmagns eru miklu stærri í heildarnotkuninni en nokkrar ljósaperur. Um kvöldmatarleytið eru margar verksmiðjur og iðnfyrirtæki stopp en aðrar þar sem unnin er vaktavinna, munu ekki tefja framleiðsluna með slíku ótímabæru stoppi. Einn bræðsluofn í álveri er stærri en öll rafmagnsnotkun í Reykjavík og útsláttur á slíkum ofni hefur áhrif á rafkerfið, ekki aðeins í Reykjavík, heldur um land allt. Fáeinar ljósaperur segja ekkert í slíku sambandi, ekki einu sinni allar ljósaperur á Íslandi.

Því kostar það aðeins vandræði fyrir mótmælendur ætli þeir sér að mótmæla með því að slá út lekaliðanum. Það er því best að finna sér aðrar aðferðir til að mótmæla og sleppa lekaliðanum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli