þriðjudagur, ágúst 15, 2006

15. ágúst 2006 – Vel mælt Heimir Már

Síðastliðinn laugardag birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu frá svokölluðum Samvinnuhóp kristinna trúfélaga þar sem bent er á það sem kallað er frelsi frá samkynhneigð. Eftir að hafa alist upp og búið stærstan hluta lífsins í harkalegu gagnkynhneigðu samfélagi þar sem samkynhneigð var fordæmd þar til fyrir örfáum árum síðan, hélt ég að ekki þyrfti að læra neitt um gagnkynhneigð, en nú er það ljóst nokkrir hægrisinnaðir bókstafstrúarmenn og öfgamenn telja að hægt sé að læra gagnkynhneigð.

Þegar ég heyrði fyrst af þessari auglýsingu, veitti ég henni litla athygli og taldi hana lýsa best gömlum fordómum og afturhaldi. Þá taldi ég enga ástæðu til að gera veður úr henni, því eins og ég hefi sagt áður á þessu bloggi mínu, þá lýsir opinberun af þessu tagi best þeim sjálfum sem settu hana fram. Hun er sömuleiðis öðruvísi en meiðandi fordómar af sama meiði sem birtust í athugasemdum við bloggið, að hún var á ábyrgð ákveðinna nafngreindra aðila og því án ábyrgðar ritstjórnar viðkomandi dagblaðs, þ.e. Morgunblaðsins. Fordómafullar athugasemdir við bloggið mitt um daginn voru undir dulnefni og að auki undir IP tölu fyrirtækisins sem ég vinn hjá og hefði því auðveldlega verið hægt að benda á mig sem hugsanlegan bréfritara.

Það var fjallað um auglýsinguna í Kastljósi sjónvarpsins á mánudagskvöldið. Viðmælendur stjórnandans voru tveir kunningjar mínir, hinn samkynhneigði Heimir Már Pétursson fréttamaður og hinn gagnkynhneigði Jón Valur Jensson guðfræðingur og ættfræðigrúskari. Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf þótt örlítið vænt um Jón Val vegna starfa hans í þágu ættfræðinnar. Þá hefur hann grafið fram nokkra gullmola af ættfræðibókum mér til handa og þakka ég honum kærlega fyrir það. Ég deili samt ekki skoðunum mínum með honum.

Jón Valur er ákafur hægrimaður og þrátt fyrir yfirlýsingar sínar þess efnis að hann sé kristinn, neita ég að trúa því. Hvorki er fyrirgefningin honum í blóð borin né er hann hlynntur hinum tíu boðorðum. Hann hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við dauðarefsingar og sá sem gerir slíkt er ekki kristinn maður. Heimir Már er algjör andstæða við Jón Val, vinstrisinnaður friðarsinni og lifir eftir kristnum lífsgildum, þ.e. aðhyllist fyrirgefninguna og kærleikann.

Er ég fylgdist með Kastljósþættinum gladdi mig mjög að sjá hve Heimir Már var yfirvegaður og vel inni í öllum málum sem snertu þau mál sem voru til umræðu, það er ímyndaða lækningu af samkynhneigð. Það var lítið farið inn á haturstengda glæpi gagnvart samkynhneigð, en þeir eru margir. Sjálf hefi ég tekið þátt í baráttuhóp í Evrópu gegn hatursglæpum með áherslu á morðið á Gisbertu í febrúar síðastliðnum. Þar voru unglingar undir umsjón kaþólsku kirkjunnar sem réðust að Gisbertu, misþyrmdu henni hrottalega og myrtu síðan. Morðið var ekki í þágu kirkjunnar, en verður blettur á sögu kaþólsku kirkjunnar í Portúgal um langa framtíð.

Spurningin er hversu mjög svokallaðir kristnir söfnuðir eru ábyrgir þegar slíkir glæpir eru látnir viðgangast?

-----oOo-----

Hvað veldur því að heimsóknir á síðuna mína voru vel yfir 300 í gær? Má kannski búast við því að sjálfsmyndin í rigningunni á toppi Strútsins verði á forsíðu Séð og heyrt á miðvikudag? Það yrði ekki í fyrsta sinn sem rigningarmynd af mér villtist á forsíðuna á því virðulega blaði.


0 ummæli:Skrifa ummæli