sunnudagur, ágúst 20, 2006

20. ágúst 2006 – Jón, Halldór og allir hinir

Þá er hinni miklu dramatík Framsóknarflokksins lokið og Jón orðinn formaður, en Halldór farinn heim með skottið á milli lappanna.

Sagt var í fréttum að Jón Sigurðsson væri líklegri til að ná sáttum innan flokksins en Siv Friðleifsdóttir. Það má vel vera. Ég er ekki í flokknum né styð hann. Ég studdi Alfreð Þorsteinsson til allra góðra verka sem og Sigrúnu Magnúsdóttur og síðar nöfnu mína Kristinsdóttur á meðan R-listinn var og hét þótt ekki styddi ég Framsóknarflokkinn sem slíkan. Með því að Björn Ingi Hrafnsson tók sæti þeirra beggja lauk stuðningi mínum við einstöku Framsóknarmenn og ég gat snúið mér að öðrum málefnum og öðrum og betri flokkum. Vegna þessa kemur mér það ekkert við hver situr í formennsku í Framsókn og á erfitt með að meta hver er líklegastur til að ná sáttum innan flokksins.

Sem kjósandi hefi ég aftur á móti fulla skoðun á þessu flokksþingi. Þar er ég ekki viss um að Jón Sigurðsson eigi mikið fylgi utan Framsóknarflokksins. Með því að velja hann til formennsku er forystan í reynd að setja flokkinn í biðstöðu uns æskilegur formaður kemur til sögunnar sem getur leitt flokkinn til sigurs. Spurningin er bara, hvort sá arftaki komi áður en flokkurinn lognast útaf? Ekki veit ég.

Í viðtali við föstudagsblað Morgunblaðsins forðast Halldór Ásgrímsson að nefna að stuðningur hans við árásina á Írak hafi verið hans mestu mistök, en bendir á nokkrar aðrar “þjóðir” (les: ríkisstjórnir) sem hafi stutt innrásina. Þessi orð Halldór lýsa ágætlega hve maðurinn er óábyrgur gerða sinna, því opinber stjórnmálamaður á ekki og má ekki styðja glæpi og fjöldamorð, þótt einstöku vinir hans hafi gerst samsekir gerandanum og jafnvel þátttakendur í hryðjuverkunum. Ég vonaðist til að Halldór myndi biðja íslensku þjóðina afsökunar á stuðningi sínum við árásina á Írak þegar hann hélt sína lokaræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins. Það gerði hann ekki og er maður að minni fyrir bragðið og má mín vegna draga þessa byrði stríðsglæpa með sér út í ellina á meðan hann lærir ekki að skammast sín.

Það verða Jón Sigurðsson, Guðni Ágústsson og Sæunn Stefánsdóttir sem munu erfa stuðning Halldórs við innrásina í Írak. Nú er það þeirra að biðja íslensku þjóðina afsökunar fyrir hönd Halldórs því annars mun stuðningurinn verða svartur blettur á sögu Framsóknarflokksins um ókomna framtíð.

-----oOo-----

Það blæs ekki byrlega fyrir hetjunum hugumprúðu í Halifaxhreppi, því eftir þrjár umferðir í kvenfélagsdeildinni sitja þær í 21. sæti í kvenfélagsdeildinni með aðeins eitt stig og fjögur mörk í mínus. Ég ætla að vona að opinber heimsókn mín til liðsins í síðasta mánuði hafi ekki haft þessi áhrif á hetjurnar. Við getum þó allavega huggað okkur við að nú getur leiðin bara legið upp á við því erfitt er hægt að komast neðar.

-----oOo-----

Svo ber að sjálfsögðu að óska göngufélaganum, Guðrúnu Helgu, til hamingju með að hafa tekist að ljúka heilu maraþonhlaupi í gær.


0 ummæli:Skrifa ummæli