fimmtudagur, ágúst 31, 2006

31. ágúst 2006 - Geir Jón Þórisson ....

.... yfirlögregluþjónn er hinn mætasti maður, og drengur góður. Ég á góðar minningar af honum frá því hann var lögregluþjónn og jafnframt tollvörður í hjáverkum í Vestmannaeyjum og hefi alla tíð litið upp til hans, ekki einungis vegna hæðarinnar, en hann er með hærri mönnum. Stefna hans í trúmálum hefur ekki breytt skoðun minni á honum, þótt við séum öndverðrar skoðunar í afstöðunni til ákveðinna sértrúarsafnaða og lifi ég í þeirri von að hann sé meðal hinna frjálslyndari á þeim trúmálavængnum.

Ekki get ég þó neitað því að mér þótti einkennileg afstaða hans til íslenskrar leyniþjónustu sem og kunnátta eða réttara sagt kunnáttuleysi á leyniþjónustum. Í útvarps- og sjónvarpsviðtölum ruglaði hann saman leyniþjónustu og rannsóknarlögreglu og steypti í sama mótið. Ljótt var að heyra.

Í þessum viðtölum sló Geir Jón saman þáttum sem hægt er að líkja við FBI (alríkislögreglu Bandaríkjanna) og CIA (Leyniþjónustu Bandaríkjanna) og ruglaði hann þannig saman persónunjósnum á hendur fólki sem hugsanlega gæti einhverntíma verið í andstöðu við þjóðskipulagið við ótýnda glæpamenn. Lögreglan hefur þegar ýmis ráð til að stunda persónunjósnir á hendur grunuðum afbrotamönnum og notar þau óspart. Að láta einhverja draumóraleyniþjónustu af gerð Björns Bjarnasonar fara í samkeppni við lögregluna um persónunjósnirnar er hinsvegar fráleit hugmynd. Hún er einungis réttlæting á ætluðum víðtækum persónunjósnum á hendur pólitískum andstæðingum valdamanna og ber að hafna á frumstigi.

-----oOo-----

Eins og lesendur mínir vita, þjáist ég af athyglissýki á hæsta stigi. Því lét ég hafa mig út í stutt spjall á síðum Vikunnar um daginn og birtist viðtalið í 34. tbl. blaðsins sem kemur út í dag.

Á sínum tíma sór ég þess eið að hafa aldrei neitt eftir mér á síðum Vikunnar eftir ákaflega bitra grein um mig sem birtist þar fyrir sex árum síðan. Með því að skipt hefur verið um stjórnendur í brúnni, hefur afstaða mín linast mjög og jafnvel orðið jákvæð sem ég átti ekki von á frá sjálfri mér. Sjálf er ég orðin svo meir í viðtalinu að ég er jafnvel farin að hrósa pólitískum andstæðingum mínum. Ég er mjög sátt við nýja viðtalið. Takk Gurrí :)


0 ummæli:Skrifa ummæli