föstudagur, september 01, 2006

1. september 2006 - Don Kíkótí og Kárahnjúkar

Í gær sendi Don Kíkótí, afsakið Steingrímur Jóhann Sigfússon opið bréf til útvarpsstjóra vegna þess að þáttarstjórnandi í Kastljósi Sjónvarpsins hætti við að taka hann í viðtal. Ekki dytti mér til hugar að fara í fýlu vegna þess að sjónvarpið neitaði mér um að birtast á skjánum. Þvert á móti hefur komið fyrir að ég hafi hafnað boði um þátttöku í einstöku sjónvarpsþáttum.

Stundum hefur mér fundist ég ekki hafa neitt að segja í þessum óskuðu sjónvarpsþáttum. Mér fannst óþarfi að segja sömu söguna einu sinni enn, sögu sem ég var búin að tyggja í fólk í fleiri sjónvarpsþáttum á undan sem og í blaðaviðtölum. Því taldi ég best að hægja á ferðinni og afþakka frekari boð um viðtöl að sinni. Þetta skilur ekki Don Kíkótí, afsakið Steingrímur, eða þá að hann telur að gömul útslitin plata sé aldrei of oft kveðin og vill halda áfram að óska sér þess að Kárahnjúkastífla muni bresta.

Ég hefði reyndar viljað losna við bæði Don Kíkóti, afsakið Steingrím og Valgerði úr þessum sjónvarpsþætti. Það tókst ekki og því valdi ég að gera annað en að horfa á sjónvarp þetta kvöld. Þetta þras um Kárahnjúkastíflu er eins og að þrasa um keisarans skegg og verður endasleppt bull. Á endanum mun málið gleymast og þeir sem höfðu hæst um áhættuna, munu snúa sér að öðrum málum, en enginn mun kalla þá til ábyrgðar fyrir að hafa kostað þjóðina stórfé með innantómu hjali um ímyndað stíflurof.

Á sama tíma og Don Kíkótí, afsakið Steingrímur og Ögmundur Sanchez eru uppteknir af að berjast gegn Kárahnjúkastíflu rétt eins og félagar þeirra börðust gegn vindmyllum fyrr á öldum er verið að brugga launráð á stjórnarheimilinu. Björn Bjarnason ætlar sér að koma á leyniþjónustu undir því yfirskyni að hann sé að berjast gegn fíkniefnum. Þá heyrist ekkert í Steingrími og Ögmundi því þeir eyddu öllu púðrinu í vindmyllur og eru dauðuppgefnir.

Ég óttast þessa leyniþjónustu Björns Bjarnasonar. Ekki vegna þess að ég hafi neitt á samviskunni, heldur vegna þess að rétt eins og CIA misnotaði aðstöðu sína í Bandaríkjunum og að Stasi misnotaði aðstöðu sína í Austur-Þýskalandi, þá verður þessi leyniþjónusta notuð til að stunda persónunjósnir og að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Því verður að berjast gegn henni með öllum tiltækum ráðum. Ríksivaldið hefur þegar fært sig út á ysta kant opinberrar valdníðslu. Það að kalla sakleysingja á borð við Geir Jón Þórisson til ábyrgðar fyrir nauðsyn á persónunjósnunum, verður einungis honum sjálfum til minnkunar.

Slíka nauðgun á persónufrelsinu sem Björn Bjarnason boðar, má aldrei í lög leiða á Íslandi. Það verður að berjast gegn slíku með öllum tiltækum ráðum og koma í veg fyrir það ofstæki og lögregluríki sem slík leyniþjónusta leiðir af sér.

-----oOo-----

Ég heyrði í útvarpinu að Björn Bjarnason vildi sitja eitt kjörtímabil til viðbótar á Alþingi. Mér þykir það miður. Slík rödd fortíðar og kaldastríðshugsunar hefði átt að vera útdauð fyrir löngu og persónan sjálf best geymd við hannyrðir í félagsstarfi eldri borgara. Þar er minnst hættan á að hann geri eitthvað illt af sér.

-----oOo-----

Þá er sælan farin fyrir bí. Eftir að hafa fengið yfir 300 heimsóknir á dag þrjá daga í röð, sá fólk að ekki væri von á Guðrúnu Völu á þessari rás og gafst upp. Um leið féll lesendatalan niður í 225.


0 ummæli:Skrifa ummæli