miðvikudagur, september 27, 2006

27. september 2006 - 2. kafli - Hvað kostar að hætta við Kárahnjúkavirkjun?

Á þriðjudagskvöldið fór fjölmennur söfnuður, hvattur af Ómari Ragnarssyni, í göngu niður Laugaveginn og krafðist þess að hætt yrði við að fylla Hálslón ofan við Kárahnjúkastíflu. Ég fór að velta fyrir mér hvað efnd slíkrar kröfu myndi kosta.

Ef mig misminnir ekki, er áætlaður kostnaður við byggingu Kárahnjúkavirkjunar um 90 milljarðar króna sem er að mestu leyti gjaldfallinn. Þá verður að reikna með minnst þriggja ára seinkun á álveri Alcoa á Reyðarfirði, byggingu gufuaflsvirkjana norður í Þingeyjarsýslu og lagningu háspennulínu frá hinum ætluðu nýju virkjunum og suður í Fljótsdal til móts við þegar lagða háspennulínu til Reyðarfjarðar. Gróflega áætlað myndi þetta kosta yfir 200 milljarða eða sem svarar 700.000 krónum á hvert einasta mannsbarn í landinu. Er þá ótalinn sá álitshnekkur sem íslenska þjóðin myndi bíða vegna svikinna samninga auk þess sem spyrja mætti þess hver gæti lagt fram þessa 200 milljarða til greiðslu virkjunarinnar og skaðabóta sem frestuninni yrði örugglega samfara?

Ef hætt yrði við fyllingu Hálslóns myndi slíkt skapa slíka gjá á milli Austfirðinga og íbúa höfuðborgarsvæðisins að seint myndi gróa um heilt á milli, en Kárahnjúkastífla myndi standa um langa framtíð sem dæmi um þrjósku bláfátækrar þjóðar.

Ég vil óska Austfirðingum til hamingju með áfangann sem felst í upphafi fyllingar Hálslóns.


0 ummæli:







Skrifa ummæli