föstudagur, september 29, 2006

29. september 2006 – Fylling Hálslóns

Margir starfandi sjómenn sem ég þekki, eru á leiðinni í land. Þeir bíða eftir réttu atvinnutækifæri og á réttum stað og um leið og rétta tækifærið gefst eru þeir komnir í land. Þetta á ekki einungis við um þá sjálfa, heldur og kannski öllu fremur við um maka þeirra og aðra fjölskyldumeðlimi. Meðal þeirra starfa sem margir sjómenn hafa sótt í, eru störf við áliðnaðinn sem í dag er orðin önnur mikilvægasta undirstöðuatvinnugreinin á eftir sjávarútvegi.

Austfirskir sjómenn eru ekkert öðruvísi en aðrir sjómenn. Þá langar í land eftir nokkur ár á sjó og stundum alltof mörg ár fjarri heimilum sínum. Fyrir þessa menn og fjölskyldur þeirra, er álver Fjarðaráls á Reyðarfirði kjörinn starfsvettvangur til að hverfa í áður en heilsan og bakið bresta af of mikilli vosbúð og þrældómi. Því fögnuðu margir þeirra upphafi fyllingar Hálslóns á fimmtudagsmorguninn.

Hin einarða andstaða fólksins í 101 og ganga Ómars Ragnarssonar gegn Austfirðingum er sem blaut borðtuska í andlitið þeim og mun í besta falli verða lítils metin, en sennilega mun hún valda enn frekari gjá á milli landsbyggðar og Reykjavíkur en áður var. Ég vona þó að Austfirðingar muni taka geðvonsku Ómars og félaga með jafnaðargeði og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Á netinu er komin hvatning til fólks að setja nafn sitt við meðmæli með virkjun Kárahnjúka. Fylgir hún hér með og jafnframt hvet ég fólk að kópera slóðina inn á sitt eigið blogg um leið og meðmælabréfinu verði dreift sem víðast:

http://www.myweb.is/virkjum/virkjum.php


0 ummæli:Skrifa ummæli