föstudagur, september 15, 2006

15. september 2006 – 2. kafli – Brunaslys

Minn ágæti jafnaldri og fyrrum skólafélagi, Jens Kjartansson lýtalæknir, kvartar á baksíðu Morgunblaðsins vegna of mikils hita á heita vatninu, gagnrýnir Orkuveituna og samkvæmt blaðinu, vill hann helst láta lækka hitastig heita vatnsins niður í 45°C. (Ekki veit ég hvaðan hann fær þessar 45°C sem er alltof kalt).

Það fólk sem verður fyrir brunasárum vegna heita vatnsins á vissulega alla mína samúð og sömuleiðis er ég hjartanlega sammála Jens um þá hættu sem heita vatninu er samfara. Hinsvegar er ekki við Orkuveituna að sakast, heldur eru það æðri yfirvöld sem þurfa að taka á þessu máli. Ég sem viðskiptavinur Orkuveitunnar kaupi inn það magn sem ég þarf af 80°C heitu vatni. Ef ég fæ 70°C heitt vatn inn í hús hjá mér, kvarta ég. Sumir viðskiptavinir kvarta þegar hitastigið er komið niður í 75°C. Það er skiljanlegt, því kaldara sem vatnið er, því minni gæði. Dælustöðvar Orkuveitunnar miða hitastig á heitu vatni út til viðskiptavina við 80°C frá dælustöð, þó með ákveðnum fráviksmörkum. Þannig koma viðvaranir inn á stjórnborð ef hitastigið fer niður fyrir 77°C og upp fyrir 83°C og á einstöku stöðum við 79°C að lágmarki.

Það hefur oft verið rætt um að lækka hitastig heita vatnsins til viðskiptavina niður í 70°C og jafnvel 60°C, en síðarnefnda hitastigið er viðmiðunargildi í mörgum ríkjum Evrópusambandsins, en þá kemur eitt babb í bátinn. Flutningur á heita vatninu frá dælustöð til viðskiptavinar miðast við 80°C, en ekki 70°C. Ef tekin verður sú ákvörðun að lækka hitastigið, verður um leið að endurnýja allt lagnakerfið í Reykjavík og nágrenni, stækka ofna í íbúðum, auka flutningsgetu hitaveitunnar með mun stærri flutningsæðum frá dælustöðvum. Önnur lausn er einnig til, en hún er t.d. notuð að einhverju leyti sumsstaðar í Svíþjóð og ég held einnig á Seltjarnarnesi þar sem heita vatnið er of mengað salti til að notast beint. Lausnin felst í því að setja upp varmaskipta, þannig að neysluvatnið fari ekki upp í nema 60°C eða 70°C. Þetta er hægt að gera nú þegar og án þess að Orkuveitan sé nokkuð með puttana í málinu. Það kostar hinsvegar peninga að gera slíkt og hefur því aldrei verið í almennri umræðu, en má alveg vekja upp þá umræðu.

Það er svo hins opinbera valds að setja reglur um lækkun á hitastigi frá hitaveitum þessa lands.

(P.s. Pistillinn ritaður af mér sem viðskiptavini OR, en ekki í krafti starfa míns)


0 ummæli:







Skrifa ummæli