sunnudagur, september 17, 2006

17. september 2006 – Kárahnjúkar


Ég fór austur á Kárahnjúka í gær, í hóp með nærri hundrað starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur. Við héldum frá Reykjavík snemma morguns, helmingur hópsins með áætlunarvél frá flugfélagi Færeyja, en restin með gömlum Fokker. Það var mikill munur að ferðast með færeysku vélinni frá þeim íslensku, enda fór hún austur á þriðjungi skemmri tíma en gömlu Fokkervélarnar.

Það var tekið vel á móti okkur að venju eftir að komið var á Egilsstaði og biðu tvær rútur eftir okkur og þegar haldið í Fljótsdalinn. Við notuðum tækifærið og heimsóttum Skriðuklaustur og Valþjófsstaðakirkju og kom þá í ljós að einn vinnufélaginn reyndist hæfileikaríkari en það að vera bæði rafvirki og vélfræðingur og bíðum við þess nú í ofvæni að hann skrái sig í prestaskólann. Ekki vildi hann þó prédika yfir okkur og taldi sig óvígðan eigi hæfan til slíkra hluta.

Við komum að stöðvarhúsi virkjunarinnar og skoðuðum stöðvarhúsið. Eftir að hafa skoðað nægju okkar í Fljótsdalnum var svo haldið til fjalla og að virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka. Þar fengum við að borða í boði Landsvirkjunar og fengum síðan að fara um virkjunarsvæðið, í fyrstu án þess fá að yfirgefa rúturnar. Fljótlega breyttist viðmót yfirmanna svæðisins vegna prúðmannlegrar framkomu okkar, þrátt fyrir að ekki vissu þeir hvort einhver gestanna héti Grímur og lofuðu þeir okkur að valsa um svæðið mun meir en áður hafði verið samþykkt. Reyndar voru bæði Íslendingar og Ítalir á varðbergi því skömmu fyrir komu okkar í hina opinberu heimsókn, höfðu tveir mótmælendur sett upp íslenskan fána í hálfa stöng, en höfðu verið fjarlægðir ásamt fánanum er við komum á svæðið. Eitthvað voru sumir þátttakenda í ferðinni blendnir í trúnni og vildu gjarnan hlekkja sig við vinnuvélar í mótmælaskyni við virkjunina, en eitthvað dró af þeim er þeim voru boðnar keðjur og möguleiki á að hlekkja sig við rúturnar sem höfðu flutt okkur á svæðið.

Einmana flugvél flögraði nokkrum sinnum yfir hausamótunum á okkur á meðan við stoppuðum þarna og reynist sjálft afmælisbarn dagsins vera þar á ferð. Þá var veður hið ágætasta og urðum við margs vísari um mjög svo umdeilda framkvæmd. Við héldum svo aftur til byggða og vorum komin aftur til Reykjavíkur um klukkan 19.00.

Ég á eftir að setja inn myndir frá ferðinni, en mun gera það við fyrsta tækifæri. Ef meðfylgjandi mynd er stækkuð (með því að klikka á hana), sést að litlu rauðu dílarnir á myndinni eru starfsmenn að vinnu við stíflugerðina. Einhverjum datt strax í hug smávaxnir Kínverjar, en þeim hinum sama var þegar í stað boðin keðjan ef hann léti ekki af fordómunum gagnvart virkjuninni og þeim sem byggðu stífluna.

-----oOo-----

Ég er farin að hafa áhyggjur af hetjunum hugprúðu í Halifaxhreppi. Eftir níu umferðir í kvenfélagsdeildinni, eru þær einungis komnar með sex stig, hafa tapað fimm leikjum, gert þrjú jafntefli og unnið einn leik. Það er sitthvað að mælast til að hetjurnar haldi sér í kvenfélagsdeildinni eða að senda þær niður um deild.

Öllu betur hefur hinu unga liði, Sameining Mannshestahrepps gengið. Þeir hafa unnið alla leiki sína á haustinu og eru nú með 30 stig eftir tíu leiki og 36 mörk í plús, hafa skorað 40 mörk, en einungis fengið á sig fjögur.

-----oOo-----

Loks fær sönnen hamingjuóskir með 29 ára afmælið.


0 ummæli:Skrifa ummæli