föstudagur, september 15, 2006

15. september 2006 - Bloggkaffi

Ég álpaðist upp á Skaga á fimmtudaginn, en ég hafði sannfrétt að frú Guðríður væri nýbúin að hella upp á könnuna. Þangað mætti einnig Sigrún nágranni Guðríðar og bloggari af Guðsnáð. Á meðan við tróðum í okkur meðlætinu fór einhver að velta fyrir sér hvort ekki væri kominn tími til að halda árshátíð bloggara? Ekki veit ég hversu góð hugmyndin er, en ég man ágætlega eftir ágætum árshátíðum irkverja og einstakra irkrása. Þær tókust oft ágætlega, en á síðari tímum enduðu þær stundum með vinslitum og leiðindum og hættu því að verða sá vettvangur vináttu og samlyndis sem þær voru ætlaðar í upphafi.

Ég vil samt kasta fram þessari hugmynd ef einhver vill ræða hana frekar.

-----oOo-----


Ég er enn hugfangin af henni Emmu litlu Mærsk sem nú er að lesta í Evrópu áður en hún heldur í austurveg til Hong Kong. Aðalvélin í henni er 80 Megawött eða 109.000 hestöfl við 102 snúninga hraða á mínútu og gefur hinu 150.000 tonna skipi 25 hnúta hraða. Með öðrum orðum. Hún er jafnstór í afli og fyrsti áfangi Hellisheiðarvirkjunar. Auk hennar eru fimm hjálparvélar sem samtals gefa af sér 40.000 hestöfl. Ekki veitir af, enda þarf að halda yfir þúsund frystigámum gangandi á milli heimsálfa. Þess má geta að einungis þarf 13 manns að lágmarki til að halda skipinu í rekstri. Enn og aftur minnist ég Bakkafoss II þar sem var 22 manna áhöfn svo ekki sé talað um Lagarfoss II sem var með 31 manns áhöfn.

Ef myndin er skoðuð vel, sjást nokkrir menn vera að vinna við aðalvél Emmu Mærsk þar sem hún er á verksmiðjugólfinu og áður en hún er sett niður í skipið.


0 ummæli:Skrifa ummæli