miðvikudagur, september 27, 2006

28. september 2006 - Myrkvuð gúrkutíð

Árið 1967 varð háspennubilun í rafkerfi New York borgar sem varð til að öll borgin myrkvaðist. Þegar sagt var frá þessari bilun var sagt frá því í hálfgerðu gríni í íslenskum fjölmiðlum, að þá hefðu sumir New York búar séð stjörnur himinsins í fyrsta sinn á ævinni og Íslendingar hlógu að grunnhyggnum Ameríkönum.

Nú á að endurtaka leikinn, ekki í New York og ekki vegna bilunar, heldur eru það Reykjavík og Andri Snær Magnason og andstæðingur virkjanaframkvæmda (og rafmagns?) sem vill fá að sjá stjörnur og lætur slökkva á götulýsingunni svo hann geti gert slíkt að heiman frá sér. Í gúrkutíðinni þessa dagana eru svo sjónvarpsstöðvarnar upprifnar af vitleysunni og Kastljósið sent á staðinn til að mynda on/off rofann (sem er reyndar tölva) og notaður er til að slökkva handvirkt á götuljósunum.

Ef mig langar til að sjá norðurljós eða stjörnur á himni, skrepp ég aðeins út fyrir bæinn í stað þess að krefjast slíkra öfga sem að slökkt verði á Reykjavík og mun að sjálfsögðu lýsa upp heimili mitt eins og kostur er á fimmtudagskvöldið.

Þessi myrkvun hefur svo ekkert að gera með úrval kvikmynda á kvikmyndahátíð sem hefst á fimmtudagskvöldið. Sjálf hefi ég þegar keypt miða á fyrri sýningu dönsku myndarinnar Soap sem verður sýnd í Háskólabíó 3. og 4. október. Þótt ég viti ekkert um gæði myndarinnar, þykist ég kannast við söguþráðinn, enda upplifað hann að einhverju leyti sjálf. Svo er dönsk kvikmyndaframleiðsla öllu betur heppnuð en danskur hernaður.


0 ummæli:







Skrifa ummæli