laugardagur, september 02, 2006

2. september 2006 – Davíð og félagar

Á föstudagsmorguninn sendi Davíð sjálfur út boð sín til þjóðarinnar. Ég skal játa að ég heyrði ekki viðtalið fyrr en um kvöldið, en heyrði á tal manna sem lýstu því sem slæmu geðvonskukasti og að Davíð hefði aukið á grunsemdirnar í stað þess að takast að eyða umræðunni um gæði Kárahnjúkastíflu. Hvað er líka maðurinn að blanda sér í pólitík nú þegar hann er hættur afskiptum af pólitík? Ég reyndi að hlusta á viðtalið eftir að ég kom heim af vaktinni og þá var það alls ekki eins slæmt og ég hafði óttast. Þetta var reyndar algjör drottningarviðtal við þreyttan mann sem er enn á móti evrunni og Evrópusambandinu, en svokallað geðvonskukast var stórýkt.

Í framhaldi af ímynduðu geðvonskukasti Davíðs, fór Steingrímur Joð að biðla til Samfylkingar og Frjálslyndra í von um einhverskonar kosningabandalag. Ég fór að velta slíku fyrir mér. Nú er embættismannakerfið orðið gegnsýrt af íhaldi í flestum stöðum, öðrum en þeim sem Framsókn hefur náð undir sig. Dómskerfið er með hægrislagsíðu og nú einnig Seðlabankinn. Hvernig ætli Sollu og Steingrími gangi að kljást við þessa sömu embættismenn sem eru að stórum hluta flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Mér líst illa á það. Er ekki kominn tími til að ráða embættismenn útfrá faglegum forsendum eingöngu? Ef ekki, hvort ekki ætti að binda ráðningu við mun styttri tíma en nú er?

-----oOo-----

Í morgun heyrði ég af alvarlegu atviki í umferðinni nú í sumar, en þar sem allt fór vel að lokum. Tveir vinnufélagar mínir höfðu verið við mælingar í Borgarfirði og voru á heimleið á vinnubílnum. Þar sem þeir voru á ferð undir Hafnarfjalli, fór jeppi yfir á rangan vegarhelming og stefndi beint á þá og báðir bílar væntanlega á góðri ferð enda beinn og breiður vegur og hámarkshraðinn 90 km á klukkustund.

Sá sem ók vinnubílnum er ákaflega hæglátur piltur og lét þetta ekki slá sig útaf laginu, heldur fór eins langt út í kantinn og hægt var um leið og hann snarhægði á bílnum. Jeppinn náði þó að slíta hliðarspegil af vinnubílnum, en við það vaknaði bílstjóri jeppans og náði að stöðva án þess að slys yrði.

Að sögn var bílstjóri jeppans alveg miður sín eftir þetta atvik, en hann var með tvö börn í bílnum. Það væri gaman að vita hvort gerð hafi verið úttekt á atvikum sem þessu, hversu algeng þau eru og eins hversu mörg dauðaslys hafi orðið vegna þess að bílstjórar sofna undir stýri?


0 ummæli:







Skrifa ummæli