sunnudagur, september 10, 2006

10. september 2006 - Afmælisboð

Ég skrapp augnablik í afmælisboð eftir vaktina á laugardagskvöldið. Að skreppa í slíkt boð er í góðu lagi þegar fólk á frí, en þegar búið að vinna tólf tíma vakt og önnur slík bíður daginn eftir, en bakvakt á milli vakta, er engin ánægja af slíkum boðum. Ég lét mig þó hafa það að skreppa augnablik í boðið, en stoppaði einungis í klukkustund. Þegar heim var komið um miðnættið, var Hrafnhildur ofurkisa í einhverju næturteiti og sást hvergi, en systir hennar heimtaði að fá að taka þátt í samkvæminu. Hún fékk það ekki.

-----oOo-----

Enn sem fyrr halda hetjurnar okkar í Halifaxhreppi upp merkjum ólympíuandans. Í gær gerðu þær jafntefli við Grafarenda og eru nú með fimm stig eftir sex leiki í kvenfélagsdeildinni. Þá standa byrjendurnir í Sameiningu Mannshestahrepps sig öllu betur og komnir með 24 stig og eru 28 mörk í plús eftir átta leiki í fyrstu Vestfjarðadeildinni .

-----oOo-----

Fyrir nokkru varð banaslys á Vesturlandsvegi á milli Þingvallavegamóta og Köldukvíslar, nærri Leirvogstungu, þegar hross hljóp út á veginn og fyrir bíl sem ók framhjá. Á laugardagskvöldið var varað við hugsanlegu nýju hrossaati á svipuðum slóðum vegna flugeldasýningar í Grafarvogshverfi. Hvernig væri að hrossaeigendur girtu hrossin sín af svo þau hlaupi ekki aftur út á veginn. Eftir banaslysið veitti ég því athygli að nokkur hross voru á beit utan girðinga nærri Vesturlandsveginum á þessum stað, þ.e. á milli Þingvallavegamóta og brúarinnar yfir Köldukvísl.


0 ummæli:







Skrifa ummæli