mánudagur, september 25, 2006

25. september 2006 – Geitungafár

Hvað er í gangi á Íslandi? Ég var í labbitúr um Elliðarár- og Fossvogsdali á laugardaginn. Er við gengum í gegnum einbýlishúsahverfið í Árbænum, rak ég skyndilega augun í hóp holugeitunga sem virtust eiga sér bú undir steinhleðslu við einn garðinn. Getur það verið seinnihluta september? Því til viðbótar virtust geitungarnir ekkert sérlega árásargjarnir eins og þeir verða oft á haustin. Ég kallaði í náunga sem var staddur þarna og virtist vera kunnugur íbúum hússins og lét hann vita. Honum virtist vera alveg sama og þar með kemur mér þetta ekki frekar við.

-----oOo-----

Er ég var á leiðinni heim úr þvottavélakaupaleiðangri á laugardagseftirmiðdaginn (ég er að reyna að slá við kakkalakkafaraldursfréttinni í Fréttablaðinu) ók ég upp Ártúnsbrekkuna og kom að slysstaðnum þar sem ungur maður á Hondu Civic hafði ekið aftan á einhvern jeppling sem ég kann ekki að segja tegundina á. Mörgum tugum metra fyrir austan bílana var lögregluþjónn að mæla bremsuför. Mér varð það ljóst að þarna hafði eitthvað vítavert átt sér stað og sem staðfest var í fréttum kortéri síðar.

Þetta rifjaði upp fyrir mér er tveir þyngstu piltarnir í bekknum mínum í Vélskólanum fyrir þremur áratugum síðan voru saman á ferð í Austin mini sem annar þeirra átti. Þar sem þeir óku austur Hverfisgötuna á nærri 70 km hraða kom ungur drengur með glænýtt ökuskírteini og ók aftan á Austin mini sem styttist um heilt fet við áreksturinn. Eitthvað meiddust félagar mínir, þó ekki nóg til að læknast af vélstjórnarbakteríunni og tókst báðum að ljúka námi með prýðiseinkunnum og sæmd um vorið á eftir.

Eftir slysið í Ártúnsbrekkunni fór ég að velta fyrir mér hvað væri til ráða. Meðalhraðinn niður Ártúnsbrekkuna er nokkuð yfir leyfilegum hámarkshraða eða um 90 km/h. Hægustu bílarnir aka á um 80 km/h. Ég veit ekkert um hraða jepplingsins, né hraða Hondunnar, en það er ljóst að hún hefur verið á ofsahraða miðað við tjónið sem hún olli. Það er því ljóst að áróður undanfarinna daga hefur ekki skilað neinum árangri.

Ég er alfarið á móti hækkun á bílprófsaldri. Því eldra sem fólk verður er það tekur bílpróf, því fleiri klaufar verða í umferðinni. Því vildi ég frekar setja aldurshámark á bílpróf, enda sorgleg dæmi um fólk sem fór út í umferðina í fyrsta sinn á efri árum. Af hverju ekki að prófa ensku aðferðina? Í Englandi eru ökumenn á reynslutíma látnir merkja bíla sína með bókstafnum L. Af hverju ekki hér líka?


0 ummæli:







Skrifa ummæli