föstudagur, september 22, 2006

22. september 2006 – Um njósnir á Íslandi

Ég var að hlusta á viðtal við Þór Whitehead sagnfræðing í Kastljósi og tal hans um þessa stórhættulegu kommúnista sem hér voru að berja á lögregluþjónum fyrr á árum. Hann talar þar mikið um gamla Kommúnistaflokkinn, síðar Sósíalistaflokkinn og loks Fylkinguna sem einhverjar vopnaðar sveitir. Ég er ekki alveg jafnviss um að gott og skemmtilegt fólk eins og Ragnar Stefánsson og Birna Þórðardóttir séu jafnhættuleg “lýðræðinu” og af er látið og hefi hingað til talið þau fremur sem fórnarlömb ofbeldissinnaðra hægrimanna. Þá fæ ég það á tilfinninguna að skrif Þórs Whitehead séu sett fram sem mótvægi hægri manna við fyrri skrif Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um persónunjósnir á Íslandi og réttlæting á þeim.

Það voru til herskarar vopnaðra vinstrimanna á fyrrihluta tuttugustu aldar á Íslandi. Séra Gunnar Benediktsson stakk niður stílvopni, sömuleiðis Jóhannes úr Kötlum sem samdi heilu drápurnar um hættulega og skrýtna menn með rauðar húfur og Steinn Steinarr sá öfgarnar í mörgum nútímamanninum sem uppi hefur verið löngu eftir dauða hans. Ritsnilld Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar og Einars Olgeirssonar var vissulega sem óvígur her og svo má lengi telja. Slíkur vopnaburður hefur löngum þótt hættulegur í hægrisinnuðum “lýðræðisríkjum” og full þörf á að hafa eftirlit með þeim sem iðka slíkan vopnaburð.

Það er áhugavert að heyra Þór Whitehead reyna að réttlæta persónunjósnirnar og hlakka ég mjög til að komast í þessa ritgerð sem varð Sjónvarpinu hvatning til að kalla hann í viðtal vegna njósnanna.

Í nýju Sagnfræðingatali (Íslenskir sagnfræðingar, fyrra bindi útgefið 2006) sem ég eignaðist í gær, sé ég að Þór hefur m.a. gegnt eftirfarandi trúnaðarstörfum: Í stjórn Heimdallar SUS, í stjórn Varðbergs, félags um vestræna samvinnu og stjórn Vöku félags lýðræðissinnaðra stúdenta.

P.s. Ef njósnunum lauk 1976 eins og mér heyrðist Þór Whitehead gefa í skyn í viðtalinu, af hverju var þá enn verið að hlera síma herstöðvaandstæðinga 1977?


0 ummæli:Skrifa ummæli