mánudagur, september 18, 2006

18. september 2006 - Þrír kratar

Margrét vinkona mín Frímannsdóttir hefur ákveðið að hætta í pólitík. Mér þykir það miður, en um leið virði ég ákvörðun hennar. Magga hefur átt í erfiðum veikindum á liðnum árum og finnst vafalaust tími til kominn að breyta til í lífinu.

Ég kynntist henni fyrst, er hún sat í hreppsnefnd Stokkseyrar og var jafnframt varamaður Garðars Sigurðssonar á Alþingi, en hún tók fast sæti á Alþingi árið 1987 og er nú 1. þingmaður Suðurlandskjördæmis. Ég hefi ávallt metið hana mikils sem mjög heilsteypta manneskju og jákvæða sem sést á því að hún lýsti yfir stuðningi við baráttu mína þegar árið 1989 er ég flutti til Svíþjóðar.

Með þessu óska ég Margréti Sæunni Frímannsdóttur alls hins besta í framtíðinni.

-----oOo-----

Annar krati tilkynnti afsögn sína á sunnudagskvöldið. Af einhverjum ástæðum hefi ég ávallt haft ímugust á þessum manni, eða síðan Ingvar Carlsson sagði af sér ráðherraembætti í Svíþjóð. Þegar Göran Persson gekk inn á fundinn þar sem ákveðið var að hann tæki við formennsku í Socialdemokratiska Arbetarpartiet og forsætisráðherraembættinu af Ingvari Carlssyni, hitti hann sjónvarpsfréttamann sem spurði hvort hann yrði forsætisráðherra á fundinum: “Nej, jag blir inte statsminister” svaraði Göran Persson með áhersluþunga í röddinni í beinni sjónvarpsútsendingu. Þremur kortérum síðar varð hann forsætisráðherra. Með þessari lygi tapaði hann tiltrú minni á sér.

Annar sænskur krati var Sten Andersson fyrrum ritari í flokknum, en einnig félagsmálaráðherra, utanríkisráðherra og síðar málamiðlari í milliríkjadeilum. Hann var skemmtilegi maðurinn í sænsku ríkisstjórninni, gamansamur og þessi ágæta manngerð sem manni fer ósjálfrátt að þykja vænt um alveg burtséð frá pólitík, ekkert ósvipað og Guðni Ágústsson eða Vilhjálmur Hjálmarsson. Hann varð bráðkvaddur á laugardaginn, 83 ára gamall.


0 ummæli:







Skrifa ummæli