mánudagur, september 25, 2006

26. september 2006 – Nýja fólkið í blokkinni

Það er nýtt fólk að flytja inn í íbúðina fyrir neðan mig. Um er að ræða eldri hjón, ákaflega prúð og þægileg umgengni. Það ætti auðvitað að vera fagnaðarefni að fá líf í litla íbúð sem hefur verið í útleigu í marga mánuði, en þó ollu nýju íbúarnir sumum íbúanna nokkru hugarangri. Frúin sem er að flytja inn er nefnilega með kisuofnæmi.

Ég var að koma heim á mánudagskvöldið með tæki og tól í höndunum til að útbúa nýja einangrunarhlíf fyrir rafmagnstöfluna í íbúðinni eftir að hún hafði verið verið endurnýjuð á sunnudag. Þegar ég fór upp stigann og framhjá íbúðinni á hæðinni fyrir neðan mig, var hún galopin og nýju íbúarnir innandyra reiðubúin að taka á móti húsgögnum. Ég kastaði á þau kveðju og hélt áfram upp stigann til mín. Um leið og ég opnaði dyrnar, skaust kisan Tárhildur út og niður stigann. Mér tókst að koma í veg fyrir að Hrafnhildur færi sömu leið, lokaði hana inni í herbergi á meðan ég fór niður að athuga hvert Tárhildur hafði haldið.

Þegar ég kom niður, hafði Tárhildur skotist inn í íbúðina fyrir neðan og þar sem henni fannst hún þekkja alla húsaskipan í galtómri íbúðinni fékk hún vægt taugaáfall, komin inn á eigið heimili að hennar mati, en án alls húsbúnaðar. Mér tókst að góma hana með snatri og koma henni til síns raunverulega heimilis um leið og ég ruddi úr mér innilegum afsökunarbeiðnum fyrir ónæðið sem Tárhildur hafði valdið frúnni á neðri hæðinni.

Ég fæ á tilfinninguna að þetta verði allt í lagi.

-----oOo-----

Ég eyddi vinnudeginum austur í Hellisheiðarvirkjun. Það er nauðsynlegt að kynna sér hlutina vel, enda mun ég þurfa að fjarvakta vélarnar í framtíðinni sem viðbót við allt hitt, hina upphaflegu vöktun á hitaveitu í Reykjavík og Mosfellssveit, Nesjavallavirkjun, bæði heitavatnsframleiðslu sem og rafmagnsframleiðslu, vatnsveitu, bæði framleiðslu og dreifingu, fráveitu, þ.e. dælingu á því sem við skilum frá okkur í gegnum hreinsistöðvar til sjávar, en nú síðast Hellisheiðarvirkjun. Það er ein manneskja sem vaktar þetta allt í senn, reyndar ein í hópi sex vélfræðinga sem deila verkefnunum á milli sín og þurfa að skipta árinu, deginum og nóttunni á milli sín. Hvar endar þetta?


0 ummæli:







Skrifa ummæli