miðvikudagur, september 20, 2006

20. september 2006 – Róbert Marshall

Á mánudaginn skrifaði Róbert Marshall ákaflega einlægt bréf, en opið til helsta eiganda fjölmiðlasamsteypunnar sem hann vinnur hjá og biður um grið í rúmt ár í viðbót fyrir Nýju fréttastofuna NFS.

Ég efa það ekki að Róbert gangi gott eitt til í bréfi sínu til Jóns Ásgeirs. Hann stendur frammi fyrir því að þurfa að segja upp nokkrum tugum hæfileikaríkra starfsmanna, verði stöðin lögð niður löngu áður en fullreynt verður hvort hún geti átt rekstrargrundvöll og fara þau sjónarmið ekki saman við sjónarmið þess, sem hugsar einungis um krónur og aura. Um leið vaða uppi ýmsir aðilar sem eru ósammála Róbert Marshall í skrifum hans, fólk sem lítur á bréfið til Jóns Ásgeirs sem sönnun undirlægjuháttar starfsmanna 365 miðla gagnvart eigendum fyrirtækisins þar á meðal margir af betri bloggurum þessa lands og hafa þeir óspart látið í ljós gagnrýni á hann fyrir skrifin.

Ég viðurkenni fúslega að ég er ekkert sérlega hrifin af sjónvarpsfréttastöð á borð við NFS. Mér finnst stöðin minna að sumu leyti of mikið á CNN þar sem allt kapp er á að sýna andlit fréttamannsins, en minna um venjulegar fréttamyndir. Ég trúi því þó að hægt sé að bæta úr þessum ágalla.

Sömuleiðis er ég lélegur sjónvarpsáhorfandi. Í vinnunni minni er sjónvarpið stundum í gangi inni í setustofu inni af stjórnstöðinni allan daginn hvort sem fólk er að horfa eður ei, en ég vel iðulega að slökkva á sjónvarpinu þegar ég kem á vaktina, enda finnst mér það draga einbeitinguna frá því sem ég á að gera í vinnutímanum. Fyrir bragðið horfi ég sjaldan á NFS eða Stöð 2, enda hvorugt til á heimilinu. Að auki kemst ég ekki yfir að horfa á nema eina sjónvarpsstöð í einu eða þá eina útvarpsstöð, en ef ég heyri fleiri stöðvar samtímis, renna hljóðin saman í eitthvern óskiljanlegan hávaða. Loks þykir mér vænt um þögnina á stundum.

Öfugt við allar skammirnar sem dunið hafa á Róbert Marshall síðustu dagana, er ég hlynnt skrifum hans þótt ýmislegt megi setja út á innihaldið og vil endilega sjá þessa sjónvarpsstöð dafna áfram og bæta sig, fremur en að blæða út á fórnaraltari græðginnar.

-----oOo-----

Eitthvað vænkaðist hagur strympu í kvöld, afsakið Halifaxhrepps, en hetjurnar okkar tóku Daghamstrana frá Rauðubrú í nefið í kvöld. Kannski þurfa þær ekkert að óttast að falla úr kvenfélagsdeildinni í vor, komnar með 9 stig eftir tíu leiki á tímabilinu.

Öllu betur gengur köppunum í Sameiningu Mannshestahrepps, en þeir hafa nú leikið ellefu leiki í haust og unnið alla, komnir með 38 mörk í plús í fyrstu deild hinna ensku Vestfjarða. Rassenal hvað?


0 ummæli:Skrifa ummæli