sunnudagur, september 03, 2006

3. september 2006 – Um fíkniefnamál og fótbolta

Það var sagt frá því í fréttum Ríkissjónvarpsins, að ópíumrækt hefði stóraukist í Afganistan frá falli talibanastjórnarinnar þar í landi. Hún hefði aldrei verið meiri en nú og framleiðslan aukist um 59% síðan í fyrra. Það þarf víst ekki að koma neinum á óvart þegar haft er í huga að nú er komið á viðskiptafrelsi þar í landi og lögmál framboðs og eftirspurnar tekin við af trúnni á Allah. Þannig hvatti umboðsmaður Sameinuðu þjóðanna til þess að hundrað mestu ópíumframleiðendurnir og fíknaefnasalarnir verði handteknir og dregnir fyrir dómara en eignir þeirra gerðar upptækar og dreift meðal fátækra öryrkja. Síðan var klykkt út með að ópíumræktin væri mest á þeim svæðum sem talíbanar ráða.

Skrýtið. Ef mig misminnir ekki, þá var bann við ópíumrækt í tíð ógnarstjórnar talíbana og því var ópíumrækt í lágmarki er þeir voru hraktir frá völdum í stórum hluta landsins. Ef þeir eru trúir sjálfum sér, fara þeir varla að leyfa ópíumrækt núna eftir að þeir hafa verið hraktir frá völdum. Það er svo aftur önnur saga, að samkvæmt sömu frétt, ríkja talíbanar enn í hluta Afganistan eftir fjögurra ára hersetu Bandaríkjanna og fylgifiska þeirra í landinu. Þótt mannréttindafyrirlitning talíbana hafi verið algjör á þeim árum sem þeir voru við völd í stærstum hluta Afganistan, held ég að kalla þurfi aðra til ábyrgðar fyrir hinni stórauknu framleiðslu á opíum og heróíni í Afganistan.

-----oOo-----

Fréttir bárust af því í gær að tveir refsifangar hafi verið leystir úr gæsluvarðhaldi vegna einhvers fíknaefnamáls innan veggja fangelsins á Litla-Hrauni. Ég fór að velta því fyrir mér hvort ekki beri að bæta þeim dögum sem þeir sátu í gæsluvarðhaldi, við refsitímann þeirra á Litla-Hrauni?

-----oOo-----

Ekki blæs byrlega fyrir hetjunum okkar í Halifaxhreppi. Ólympíuhugsunin hefur verið í hávegum höfð frá því ég fór í opinbera heimsókn til liðsins í júlí og hafa þær verið iðnar við að sýna andstæðingunum kurteisi og gott viðmót. Í gær töpuðu þær fyrir Félagi eldri borgara með einu marki og sitja nú í þægilegu 19. sæti kvenfélagsdeildarinnar eftir sex leiki og hafa mátt muna fífil sinn fegri. Þá er nú staðan betri hjá hinu liðinu Sameiningu mannshestanna, en þeir eru með fullt hús stiga eftir fyrstu sex leiki haustsins.


0 ummæli:Skrifa ummæli