fimmtudagur, september 07, 2006

7. september 2006 – Á Vífilsfellið án kókdrykkju


Ég vaknaði seint á miðvikudagsmorguninn og nennti ekki á fætur fyrr en kisurnar mínar ýttu mér framúr rúminu, því þær þurftu sinn morgunmat og svo þurfti Hrafnhildur ofurkisa og útivistarfrík að komast út í garð. Þegar komið var fram yfir hádegið, var ég ekki enn búin að ákveða hvernig ég ætti að eyða deginum, ganga ein á Esjuna, taka til og þrífa, eða bara labba í Elliðaárdalnum. Þar sem ég var í símanum að ræða haustverk og fjárréttir við konu eina úti á landi, hringdi gemsinn. Það var Kjóinn að kanna hvort heitt væri á könnunni. Auðvitað er heitt á könnunni sagði ég og flýtti mér að setja á könnuna. Svo kom Kjóinn og stakk ég þegar upp á því að hann rölti með á Esjuna. Honum leist vel á það og eftir tvo bolla af dýrindis nýbrenndu og möluðu Kaaberkaffi var hann til í göngu á heimsenda.

Við ókum af stað. Er litið var til Esjunnar, var hún í felum á bakvið ský og lagði ég því til að farið yrði frekar á Vífilsfellið. Þar var efsti toppur hulinn skýjum, en við héldum þó í áttina að Vífilsfellinu. Þegar þangað var komið reyndist toppurinn vera að hrista af sér skýjahuluna og því ekkert annað að gera en að halda upp á leið.

Eftir vel innan við tveggja tíma göngu náðum við á toppinn á þessu skemmtilega göngufjalli sem býður upp á ýmis tilbrigði í fjallgöngum, léttar skriður, klappir og klettaklifur, þó yfirleitt án þess að lagt verði í neina hættu. Á toppnum voru teknar myndir að venju og notið útsýnis, hringt í upptekna göngufélaga og síðan rölt niður aftur og staldrað við á Litlu kaffistofunni á leiðinni heim.

-----oOo-----

Í bókinni “Íslensk fjöll, gengið á 151 tind” er sú saga sögð að Vífill leysingi Ingólfs Arnarsonar hafi skroppið daglega á fjallið heiman frá Vífilsstöðum til að gá til veðurs, en hann stundaði fiskveiðar frá Gróttu. Eitthvað finnst mér þessi saga vafasöm. Ég þykist vita að Vífill hafi ekki farið þessa leið á bíl og því er vart um aðrar samgöngur að ræða en hesta eða þá fótgangandi. Ef hann hefur farið á hesti, hefur dagurinn farið í að ríða frá Vífilsstöðum að Vífilsfelli, hlaupa upp og niður og heim aftur, en vart tími til að ríða vestur í Gróttu og heim aftur, hvað þá að stunda fiskveiðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli