mánudagur, september 18, 2006

19. september 2006 - Umferðin í Reykjavík

Þegar ég var á leið heim eftir vaktina á mánudagskvöldið, veitti ég athygli lítilli malarhrúgu við hlið gangstígsins við Bæjarhálsinn og hugsaði með mér að þessari litlu malarhrúgu hafi Villi gamli gleymt er hann var að hreinsa til í Árbænum á laugardaginn var.

Ég viðurkenni að ég hefi oft séð þessa malarhrúgu áður, eða allt frá því Villi gamli hóf hreinsunarherferð sína hina fyrri í Árbæjarhverfinu og lét fjarlægja strætisvagnabiðskýlin fyrir leið S5, en nú var tilefnið annað. Ég sá nefnilega viðtal við Gísla litla glókoll formann Umhverfisráðs Reykjavíkurborgar í fréttaskýringaþættinum Ísland í dag á Stöð 2 í lok vaktar minnar.

Í viðtalinu sem tekið var upp síðdegis á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar fór Gísli mikinn og benti meðal annars á að fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluti hafi verið á móti bættri umferð í Reykjavík og nefndi þar sérstaklega mislæg gatnamót á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Mikil ósköp, satt segir þú Gísli minn. R-listinn gerði ekkert í þessu máli og er það miður. Sömu sögu er að segja af meirihlutanum sem var á undan R-listanum sem og vinstri stjórninni 1978-1982, þessari sömu sem skipulagði byggð austan við Rauðavatn gegn hörðustu mótmælum Sjálfstæðisflokks og Morgunblaðs. Við skulum svo ekkert ræða um staðsetningu hinnar nýju miðstöðvar Morgunblaðsins. Satt best að segja var það meirihlutinn sem var á undan vinstra samstarfinu sem lagði til að gerð yrðu mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í nýju aðalskipulagi sem gert var árið 1965 og var notað sem helsta kosningaplagg Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum árið 1966. Við verðum að fyrirgefa Gísla að hann muni ekki svo langt aftur, því hann fæddist ekki fyrr en 1972 eða sjö árum eftir að umrætt aðalskipulag var samið. Síðan hefur ekkert skeð og hefur flokkurinn hans Gísla þó verið einráður í borginni í 24 ár á þessu tímabili.

Tilefni viðtalsins við Gísla glókoll var þó annað og meira en ein mislæg gatnamót. Fremur var um að ræða hina þungu umferð til borgarinnar á morgnanna og úr borginni á eftirmiðdögum. Þar er vissulega alvarlegt vandamál, of mikil umferð og of margir bílar miðað við þessar fáu aðalgötur til borgarinnar. Ein aðferð er sú að bæta leiðarkerfi strætó þótt það taki tíma að byggja upp traust að nýju eftir niðurskurð hins nýja meirihluta nú í sumar.

Besta ráðið er þó að gera eins og ég og á annan tug starfsfólks OR hefur gert. Flytja í næsta nágrenni vinnunnar því eins og skáldið sagði: “Sjálfsagt er og best að hafa allt á sama stað.”

-----oOo-----

Ekki tókst henni Anniku Stacke vinkonu minni sem er prestur í Lammhult í Växjö kommun og sem getið var í Fréttablaðinu á mánudaginn, að tryggja sér öruggt sæti í kommunalpólitíkinni í Växjö. Hún var í sjöunda sæti en Folkpartiet Liberalerna fengu aðeins fjóra fulltrúa í bæjarstjórn. Það er annars skemmtilegt að bera saman mismuninn á kommúnum hér á Íslandi við Svíþjóð. Ég átti heima í Järfälla kommun rétt fyrir norðan Stokkhólm. Það voru innan við 60.000 íbúar í sveitarfélaginu og það voru 63 bæjarfulltrúar. Í Reykjavík eru nærri helmingi fleiri íbúar, en einungis 15 borgarfulltrúar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli