mánudagur, september 04, 2006

4. september 2006 – Deyjandi gönguklúbbur?

Fyrir gærdaginn var blásið í lúðra. Nú skyldi haldið í gönguferð! Ég lenti á erfiðri næturvakt þar sem ég gat ekki einu sinni lokað öðru auganu á vaktinni vegna rafmagnsbilunar í miðborg Reykjavíkur og skreiddist því heim með störu í augum eftir nóttina, skreiddist upp í rúm og svaf til klukkan eitt.

Þegar heim var komið, var ljóst að ekkert yrði úr göngu á Akrafjallið. Þórður og Sigrún voru að gæta ungbarna, Kjói að faðma Gustavsberg, Guðrún Vala nýkomin heim frá útlöndum og Guðrún Helga þögul sem gröfin. Kaffiilmurinn úr eldhúsi Himnaríkis á Skaganum nægði ekki einu sinni til að vekja neinn göngugarp til lífsins og því var göngu dagsins aflýst.

Mér finnast þetta slæm tíðindi. Það stefnir í að gönguklúbburinn verði bara ég ein og það stefnir í að ég verði ein eftir á göngu með sjálfri mér. Stjórnarformaðurinn orðinn afhuga göngum og Þórður sjóari á leið til sjós, en hin í tímahraki. Ætla þau virkilega að gerast svo kaldlynd að skilja mig eina eftir með Giljagaur og Gilitrutt?


0 ummæli:Skrifa ummæli